Einokunarstaðan verði ekki fest í sessi

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Á sama tíma og áfellisdómur Samkeppniseftirlitsins er felldur yfir MS vinna ríkisstjórnarflokkarnir að því að festa einokunarstöðuna í sessi með nýjum búvörusamningum,“ segir í yfirlýsingu Samfylkingarinnar um 480 milljóna króna sekt Samkeppniseftirlitsins á Mjólkursamsöluna vegna markaðsmisnotkunar.

Samfylkingin segir undanþágur í mjólkuriðnaði frá samkeppnislögum bitna á almenningi og bændum en styrkja stöðu einokunarfyrirtækja.

„Alþingi hefur ekki staðfest [búvöru]samningana og Samfylkingin mun beita sér gegn þeim. Ef fyrirætlan ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga verður ekki mögulegt að gera nauðsynlegar umbætur á úreltu landbúnaðarkerfi næstu 10 árin,“ segir í yfirlýsingunni.

„Samfylkingin vill að stuðningi ríkisins við framleiðslu landbúnaðarvara verði breytt og að tekið verði upp árangursríkara fyrirkomulag sem styrkir byggðir, eykur frelsi bænda, gerir nýliðun þeirra auðveldari, stuðlar að nýsköpun, eykur hagkvæmni framleiðslunnar og bætir hag neytenda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert