Lokaverkefnið varð að fyrirtæki

Anna Katrín (t.h.) og bekkjarsystir hennar, Henriette Juel-Olsen, sem vann …
Anna Katrín (t.h.) og bekkjarsystir hennar, Henriette Juel-Olsen, sem vann lokaverkefnið með henni. Ljósmynd/Úr einkasafni

Anna Katrín Þórarinsdóttir útskrifaðist nýverið úr Kaospilot í Árósum, en það er nokkurs konar viðskiptaskóli. „Það er rosalega erfitt að skilgreina. Þetta er rosalega mikil leiðtogaþjálfun; leiða verkefni og leiða sjálfan sig. Við erum líka þjálfuð í að fara inn í fyrirtæki og hjálpa til við samskiptavandamál og endurskipuleggingu alls kyns ferla. Þetta er mjög víðfeðmt.“ Lokaverkefni sitt við skólann vann Anna með danskri bekkjarsystur sinni, Henriette Juel-Olsen, en það er nú orðið að atvinnu þeirra.

Verkfæri fyrir kennara

Verkefnið heitir Ideide og á að aðstoða kennara við starf sitt. „Við höfðum mikinn áhuga á skólakerfinu og hér í Danmörku er verið að taka gömlu smíða- og hannyrðafögin í grunnskólunum og leggja þau saman í eitt fag. Það er gerð krafa til kennaranna um að þeir geti kennt nemendunum um hönnunarferlið, þannig að þetta er ekki bara handverkið heldur líka hvernig hugmyndir verða til, hvernig við útfærum þær o.s.frv.“, segir Anna, og bætir því við að henni finnist þessi stefna menntamálaráðuneytisins danska vera flott.

„En það sem vantar upp á er að kennararnir sem kenna smíða- og handavinnu hafa ekki hugmynd um hvernig þeir eiga að kenna um þessa nýju hluti og hefur ekki verið gefið rými til að endurmennta sig eða læra um þetta. Okkur langaði að hjálpa til með þetta, því okkur finnst þetta góð hugmynd að breyta til í þessum fögum og gera þau aðeins dýpri, svo við fundum hóp af kennurum og unnum með þeim og rannsökuðum hvernig þeim gekk að kenna fagið og hverjar stærstu áskoranirnar voru.“

Anna og Henriette vinna að verkefninu.
Anna og Henriette vinna að verkefninu. Ljósmynd/Úr einkasafni

Út frá því lögðust Anna og Henriette í hugmyndavinnu og afraksturinn var Ideide, sem er nokkurs konar verkfæri eða hjálpargagn fyrir kennara. „Þetta er í rauninni kassi með 55 spilum, sem hvert um sig er með æfingu eða verkefni sem kennararnir geta gert með nemendum sínum. Þessar æfingar passa inn í mismunandi hluta af hönnunarferlinu.“

Anna segir að þær hafi gengið út frá ákveðnu hönnunarferli við gerð Ideide, sem skiptist í nokkur skref, allt frá rannsóknarvinnu til gerðar þess sem skapa á. „Það sem við erum að reyna er að leyfa nemendunum að koma með sitt eigið inn í fögin. Hingað til hefur þetta verið rosa mikið allir að prjóna sömu peysu eða eitthvað slíkt. Við erum að reyna að koma meira með þennan skapandi vinkil inn í þetta líka, sem getur vonandi nýst nemendum í framtíðinni.“

Áhugi víða að

Viðtökurnar hafa verið mjög góðar að sögn Önnu, en sala er hafin og fá þeir sem þegar hafa keypt vöruna hana afhenta í byrjun ágúst. „Við höfum mætt áhuga frá ólíklegustu stöðum. Það er búið að hafa samband við okkur frá háskólastiginu hér úti sem hefur áhuga á útgáfu sem er sniðin að því. Svo höfum við heyrt frá Svíþjóð og Kína og alls kyns stöðum sem vilja fá útgáfu á sínu tungumáli.“

Markmiðið er að stækka fyrirtækið, þar sem danskir kennarar eru takmarkaður markhópur og hugsanlega ratar Ideide til Íslands í framtíðinni. Anna og Henriette eru hins vegar báðar kasóléttar og fara því brátt í fæðingarorlof og taka sér smá frí frá verkefninu. „Við erum búnar að taka höndum saman með hönnunarfyrirtæki hér í Árósum sem mun sjá um sölu og samskipti við viðskiptavini á meðan við náum ekki að sinna því 100%, svo vörunni verður fylgt eftir þótt við verðum eitthvað frá á næstunni.“

Áhugasamir geta kynnt sér verkefnið á heimasíðu Ideide með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert