Gat ekki annað en kært Björn

Íslendingar í stúkunni á Stade de France í París.
Íslendingar í stúkunni á Stade de France í París. AFP

Bryndís Björk Guðjónsdóttir, sem hefur lagt fram kæru gegn athafnamanninum Birni Steinbekk, segist ekki hafa getað gert annað í stöðunni sem upp var komin.

Hún keypti þrjá miða af Birni fyrir tæpar 150 þúsund krónur á leik Frakklands og Íslands í 8 liða úrslitum EM í knattspyrnu en fékk miðana aldrei  í hendurnar. Var hún ein fjölmargra sem sat eftir með sárt ennið fyrir utan leikvanginn.

Björn fól lögmannsstofunni Forum að annast samskipti varðandi kröfur vegna endurgreiðslu á miðum.

Engin svör frá lögmannsstofunni

„Ég hafði strax samband við hann um kvöldið. Ég talaði við hann og sendi strax tölvupóst, sem hann svaraði ekki. Svo sendi hann almennan póst á laugardeginum þar sem hann vísaði í þessa lögmannsstofu. Við sendum póst þangað en fengum engin svör. Á fimmtudaginn tilkynntum við þeim að þetta yrði kært á föstudeginum. Það komu engin svör. Það hefur ekkert heyrst frá þessari lögmannsstofu, hún hefur ekki einu sinni staðfest að erindið hafi verið móttekið,“ segir Bryndís Björk. „Þess vegna ákváðum við að kæra strax úr því að þetta væri svona. Það var ekki eftir neinu að bíða.“

Björn Steinbekk.
Björn Steinbekk.

Ekki eins ónýt og hjá öðrum

Bryndís Björk, sem er endurskoðandi, flaug til Parísar ásamt manni sínum og dóttur. Þau ákváðu að vera í fríi í nokkra daga í borginni í stað þess að ferðast þangað eingöngu til að sjá leikinn. „Ferðin hjá okkur var ekki eins ónýt og hjá mörgum öðrum. Þarna var fólk með börn sem hafði komið eldsnemma um morguninn en átti að fara aftur heim um nóttina.“

Hélt að hann væri með miðana klára

Hún segist hafa treyst því að Björn væri búinn að útvega miðana á leikinn því hann virtist öruggur þegar hún var í samskiptum við hann. 150 þúsund krónurnar lagði hún inn á reikning Sónar Reykjavík ehf. en Björn sagði af sér sem framkvæmdastjóri félagsins í síðustu viku. Bryndís kveðst ekki hafa velt því mikið fyrir sér að hafa lagt upphæðina inn á þann reikning.

„Það var ekkert auðvelt að fá miða og hann var að bjóða miða. Ég skildi hann þannig að hann væri með miðana klára. Ég hefði aldrei keypt af honum annars. Annars hefði ég tekið sénsinn sjálf og athugað hvort ég fengi ekki miða á staðnum en það vissum við ekki þá. Við höfum aldrei farið á svona leik áður og þekktum ekki hvernig þetta væri,“ segir hún.

Vildu ekki taka þátt í slagsmálum

Ringulreið ríkti fyrir utan leikvanginn Stade de France hjá hópnum sem hafði ekki fengið miðana sína áður en leikurinn hófst.  „Maður fékk strax á tilfinninguna að það væru ekki miðar fyrir alla. Við fórum ekkert að henda okkur inn í einhverja þvögu eða standa í slagsmálum til að fá miða. Hann sagði alltaf að það væru að koma miðar því annars hefðum við verið löngu farin.“

Þó nokkrir Íslendingar sátu eftir með sárt ennið fyrir utan …
Þó nokkrir Íslendingar sátu eftir með sárt ennið fyrir utan Stade de France eftir að hafa verið sviknir um miða á leikinn. AFP

„Once in a lifetime“

Bryndís beið ásamt manni sínum og dóttur fram að hálfleik eftir miðunum en hvergi bólaði á þeim. „Þetta er mikið svekkelsi. Auðvitað er þetta fjárhagslegt tjón en það verður aldrei bætt að maður missti af þessu. Fyrir okkur var þetta „once in a lifetime“. Við stóðum fyrir utan í rigningunni þegar maður heyrði þjóðsönginn og maður var ekkert með í því sem mann langaði að vera með í.“

Láti sér þetta að kenningu verða

Hún segir að Björn hefði, um leið og hann sá að hann gæti ekki útvegað miðana, átt að hafa samband við fólkið um endurgreiða því miðana. „Ef hann hefði gert það hefði þetta getað verið sársaukaminna. Í staðinn þá þurfti maður að eyða tíma í að eltast við þetta. Það tekur tíma að fara frá miðborg Parísar í leigubíl og hanga á þessu svæði í öskrandi hávaða innan um fólk, sem smám saman rann upp fyrir að það væri ekki að fara á þennan leik,“ segir hún.

„Hann og aðrir sem eru að standa í svona þurfa að láta sér þetta að kenningu verða. Menn verða að reyna að horfast í augu við  hlutina þegar menn átta sig á því að þetta gengur ekki upp og gera eitthvað strax, því þetta er versta mögulega niðurstaðan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert