Íslenskt hugvit komið í meistaraflokk

Benedikt Skúlason, stofnandi og forstjóri, Guðberg Björnsson, stofnandi og hönnuður …
Benedikt Skúlason, stofnandi og forstjóri, Guðberg Björnsson, stofnandi og hönnuður og Bergur Benediktsson, framleiðslustjóri. Hjólin eru öll með nýja grit-gafflinum. Mynd/Lauf forks

Íslenska hugvits- og framleiðslufyrirtækið Lauf forks var nýlega tilnefnt til verðlauna á hjólasýningunni Interbike, en það er önnur af tveimur stærstu hjólasýningum heims ásamt Eurobike. Sýningin er viðskiptasýning þar sem allir stærstu hjólaframleiðendur heims flykkjast á og nýjungar í hjólageiranum eru kynntar.

Litla fyrirtækið innan um risana

Lauf forks var í ár tilnefnt í flokknum götuhjólaíhlutur ársins fyrir Lauf grit gaffalinn sem fyrirtækið byrjar að selja á næstu vikum. Meðal annarra fyrirtækja sem voru tilnefnd í þessum flokki eru Shimano, Campagnolo og SRAM, en Shimano er langstærsta fyrirtæki hjólabransans með yfir 13 þúsund starfsmenn meðan hin eru með 3 þúsund og 750 starfsmenn hvort. Hjá Lauf forks starfa aftur á móti fjórir.

Frétt mbl.is: Nýjung í hjólaheiminum

Benedikt Skúlason, annar stofnandi fyrirtækisins, segir í samtali við mbl.is að það sé rosalega gaman að vera tekinn svona inn í „meistaraflokk.“ Bætir hann við að það skemmtilegasta sé að þeir hafi sjálfir ekki tilnefnt gaffalinn heldur hafi hjólatímaritið Road bike action verið svo hrifið af kynningareintaki sem þeir fengu í hendurnar að blaðamenn þess hafi tilnefnt gaffalinn.

„Fyrir mér er tilnefningin miklu meira en hálfur sigur. Þetta er eins og Ísland að komast á EM, allt í viðbót er plús,“ segir Benedikt.

Jóhann Níels Baldursson, sölustjóri Lauf, prófar gaffalinn fyrir utan malbikið.
Jóhann Níels Baldursson, sölustjóri Lauf, prófar gaffalinn fyrir utan malbikið. Mynd/Lauf forks

Demparar fyrir nýjan markað

Gaffallinn sem Lauf forks er að setja á markað núna er byggður á sömu hugmynd og fyrri gaffall fyrirtækisins sem var hannaður fyrir fjallahjól. Benedikt segir að á undanförnu hafi svokölluð „gravel-hjól“ komið ný inn í hjólaúrvalið og það sé sá markaður sem stækki hraðast í dag. Um sé að ræða millistig á milli götuhjóla og fjallahjóla þar sem menn hafi viljað hafa eiginleika götuhjóla, en einnig séð að diskabremsur opnuðu möguleikann fyrir að fara út fyrir malbikið meira en áður.

Segir hann þessa þróun nú komna á það stig að mönnum finnist vanta einhverja fjöðrun að aftan fyrir slík hjól til að geta farið yfir þvottabretti eða smá ójöfnur. „Hefðbundnir demparagafflar eru þá overkill,“ segir Benedikt, en hönnun Lauf forks byggist á stuttum samsíða glertrefjafjöðrum í stað hefðbund­inna teleskópískra demp­ara. Varan er í raun frekar óhefðbundin og framúrstefnuleg, enda notast flestir framleiðendur í dag við hefðbundnu demparana.

Hjálpar til við að ná til fjöldans

Benedikt segir að fyrir nýja vöru eins og grit-gaffalinn skipti miklu máli að komast yfir svona stóran hjalla og fá viðurkenningu eins og tilnefninguna. Segir hann þetta auðvelda fyrirtækinu að ná til fjölda hjólamerkja sem séu almennt hrædd að gera breytingar út frá viðskiptalegum forsendum og þar séu framúrstefnulegir hlutir oft lengi að verða samþykktir.

Þegar eru 10 hjólamerki sem ætla að taka gaffalinn í sölu að einhverju leyti, en Benedikt segir að þeir horfi til þess að komast inn í ákvörðunarferli hjólaframleiðenda á næsta ári og þannig koma nýju göfflunum inn í framleiðsluferli ársins 2018.

Grit-gaffallinn er ekki með hefðbundnum dempurum, heldur er hann byggður …
Grit-gaffallinn er ekki með hefðbundnum dempurum, heldur er hann byggður upp sem fjaðurdempari. Mynd/Lauf forks

Seldu hjólagaffla fyrir 90 milljónir í fyrra

Sala Lauf forks í fyrra á fjallahjólagöfflunum nam um 90 milljónum að sögn Benedikts, en hann segir að þar sé fyrirtækið í hörku samkeppni við aðra aðila á markaði sem séu með hefðbundna dempara. Ef þeim takist að komast inn á gravel-hjóla markaðinn séu þeir í mun betri stöðu, enda telji menn hefðbundna demparagaffla þar vera of stórt skref fyrir þessa tegund hjóla. Þá bendir hann einnig á að markaðurinn fyrir götuhjól sé margfalt stærri en fyrir fjallahjól, sérstaklega þegar komi að dýrari hjólum og hjólaíhlutum. Það séu því margfaldir sölumöguleikar og hagstæðari markaðsskilyrði nái gaffallinn vinsældum í þessum flokki hjóla.

Þá hefur Lauf forks fengið styrki frá Tækniþróunarsjóði til að standa straum af þróun og framleiðslu og segir Benedikt slíkt skipta sköpum fyrir minni fyrirtæki sem eru að byggja sig upp.

Fyrstu gafflarnir koma í sölu um næstu mánaðamót, en Interbike-hjólasýningin verður haldin í Las Vegas í Bandaríkjunum hinn 21. september næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert