Rukkaður fyrir að skoða Víðgelmi

Víðgelmir í Hallmundarhrauni.
Víðgelmir í Hallmundarhrauni. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Sigurðsson er afar ósáttur við að hafa ekki fengið að ganga að hellisopi Víðgelmis í Hallmundarhrauni í Borgarfirði nema að greiða fyrir það 6.500 krónur.

Hann kveðst ávallt hafa getað gengið óhindraður að opinu en núna hefur sú breyting orðið á að ferðaþjónustufyrirtækið The Cave hefur sett upp lítið hús við bílastæðið hjá hellinum þar sem gjald er rukkað af ferðamönnum.

Sigurður mætti að Víðgelmi á laugardaginn með ættingjum sínum og danskri fjölskyldu. Voru þau níu saman, bæði fullorðnir og börn, en þau höfðu dvalið í bústað í Borgarfirðinum. Þau ætluðu að ganga að hellisopinu.

Rukkaður fyrir að ganga að opinu

Hann segist nokkrum sinnum hafa skoðað hellinn, síðast í fyrra, og alltaf hafi aðgangur þangað verið greiður án nokkurrar gjaldtöku en ekki í þetta sinn. Hús hafi verið sett upp yfir göngustíg sem liggur að hellinum.

„Ég var í erfiðleikum með að finna stíginn og þurfti að fara hringinn í kringum húsið til að finna hann. Þá kom starfsmaður fyrirtækisins úr húsinu og sagði að við mættum ekki fara að hellinum nema fá leiðsögumann í skipulagða leiðsöguferð,“ segir Sigurður, sem fékk þá skýringu að um væri að ræða skilaboð frá nýjum landeigendum.

Þau fengu þær upplýsingar að ferðin kostaði 6.500 krónur fyrir fullorðna en Sigurður sagðist þá ekki hafa áhuga á að fara ofan í hellinn heldur eingöngu að opinu. „Við vorum vinsamlegast beðin um að fara. Okkur var sagt að eina leiðin til að komast að hellisopinu væri með því að kaupa þessa ferð,“ segir hann.


Ótrúlegur dónaskapur

 „Okkur fannst þetta ótrúlegur dónaskapur. Ég vil hins vegar ítreka að þessir starfsmenn sem við ræddum við voru ekkert nema kurteisin uppmáluð. Þeir gátu ekki útskýrt þetta nánar og sögðu að þetta væri samkvæmt beiðni frá landeigendum.“

Hann bætir við að hvergi hafi fundist upplýsingar um gjaldskyldu í nágrenninu, hvorki á bílastæðinu sjálfu né á afleggjaranum. Fólk væri einungis hvatt til að hafa hjálma og ljós meðferðis ef það ætlaði ofan í hellinn.

Loka fleiri náttúrugersemum?

Sigurður, sem starfar sem geislafræðingur hjá Hjartavernd, segir atvikið snerta viðkvæma taug. „Maður er að reka sig oftar á eitthvað svona varðandi gjaldtöku sem var aldrei neitt mál hérna áður fyrr. Maður hugsar hvort það eigi að fara að loka fleiri náttúrugersemum á okkur.“

Gjaldtaka hófst í maí

Hörður Míó er staðarhaldari í Fljótstungu og rekstaraðili fyrirtækisins The Cave, sem hefur umsjón með ferðunum í Víðgelmi.

Hann segir að gjaldtakan hafi hafist 15. maí síðastliðinn en það voru foreldrar hans, Stefán Stefánsson og Þórhalla Laufey Guðmundsdóttir, sem keyptu landið. Verðið er 6.500 fyrir fullorðna og 3.500 fyrir ungmenni 9 til 15 ára.

Stórbætt aðgengi 

„Við höfum stórbætt allt aðgengi, sett göngustíg að hellinum, afmarkað hann og smíðað stiga niður í hann. Inni í hellinn höfum við sett göngupalla þannig að fólk geti á öruggan hátt skoðað hellinn. Með þessu höfum við sett lýsingu,“ greinir Hörður frá og bætir við að átta ferðir séu farnar á hverjum degi til að skoða hellinn með leiðsögumanni.

Umhverfissjónarmið að baki

Hann segir að umhverfissjónarmið séu að baki gjaldtökunni, því vernda þurfi svæðið fyrir ágangi ferðamanna. Á sama tíma sé þetta þeirra búskapur. „Það er ekki fallegt að sjá gamla slóðann sem liggur í gegnum hraunið. Þetta er viðkvæmt umhverfi og það þarf ekki mikið til þess að það sjái svolítið mikið á því í nokkuð langan tíma,“ segir hann.

Ókeypis í Surtshelli og Stefánshelli

Aðspurður segir hann að fólk hafi tekið vel í gjaldtökuna. „Fólk skilur þetta almennt og sýnir þessu tillitssemi. Við bendum fólki vissulega á að ef það hefur ekki áhuga á að fara í hellaferð þá geti það farið í hellana sem eru í nágrenninu,“ segir hann og á við Surtshelli og Stefánshelli en þar er engin gjaldtaka.

Varðandi merkingar á svæðinu vegna gjaldtöku segir Hörður að þær séu komnar úr prentun en enn eigi eftir að setja þær upp.

Þessi mynd var tekin inni í Víðgelmi.
Þessi mynd var tekin inni í Víðgelmi. Ljósmynd/Wikipedia
Sigurður Sigurðsson er ósáttur við að þurfa að borga fyrir …
Sigurður Sigurðsson er ósáttur við að þurfa að borga fyrir að ganga að opi Víðgelmis. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert