Vill opna salerni í miðborg Reykjavíkur

Búið er að opna salerni að Vesturgötu 7.
Búið er að opna salerni að Vesturgötu 7. Ljósmynd/Aðsend

Fyrirtækið Bergrisi ehf. hefur verið í viðræðum við Reykjavíkurborg síðustu 6 til 8 mánuði um að fá að opna nokkur almenningssalerni sem hafa staðið auð í þó nokkurn tíma í miðborginni.

Það fyrsta hefur þegar verið opnað á Vesturgötu 7. Einn starfsmaður verður við störf á hverju salerni fyrir sig.

„Reykjavíkurborg tekur jákvætt í þetta en stjórnsýslan er þannig að það tekur tíma að fá þetta samþykkt,“ segir Guðlaugur Magnússon, framkvæmdastjóri Bergrisa.

Gerir þarfir sínar úti í garði

„Það er gríðarleg vöntun á þessu eins og komið hefur margoft fram í fjölmiðlum. Þeir sem búa í Vesturbænum hafa óskað okkur til hamingju með salernið á Vesturgötu. Einn sagði: „Frábært, þá hætti ég kannski að sjá fólk úti í garði hjá mér að gera þarfir sínar.“

Frétt mbl.is: Tekist á um salerni á Alþingi

40 klósettskálar 

Guðlaugur segir að staðirnir sem um ræðir séu sex til sjö og klósettskálarnar um 40 talsins. Eitt salernið er á Núllinu í Bankastræti, annað í bílastæðahúsinu á reit gamla Stjörnubíós að Laugavegi 68 og það þriðja í strætisvagnamiðstöðinni í Mjóddinni en salernið þar hefur verið lokað í 4 til 5 ár, að sögn Guðlaugs.  

„Reykjavíkurborg vildi loka þessum stöðum fyrir einhverjum árum því það var svo mikill kostnaður við að halda þeim gangandi en núna er þetta nauðsynjavara.“

Salernin á Hlemmi opnuð

Sjávarklassinn hefur áður ákveðið að opna salernin á Hlemmi á nýjan leik og þar verður búnaður frá Bergrisa en fyrirtækið framleiðir ýmiss konar sjálfsala fyrir gjaldtöku.

Guðlaugur segist geta opnað salernin með hraði, um leið og leyfi fæst hjá Reykjavíkurborg. „Stærsti mánuður ferðamannsins er í júlí. Ég get opnað Núllið í Bankastræti eftir viku ef ég fæ það afhent á morgun, því það er allt til alls þarna,“ greinir hann frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert