Rétt að landeigendur fái eitthvað fyrir sig

Víðgelmir í Hallmundarhrauni.
Víðgelmir í Hallmundarhrauni. mbl.is/Árni Sæberg

Landeigendur að Víðgelm­i í Hall­mund­ar­hrauni í Borg­ar­f­irði kynntu í vor uppbyggingaráform sín varðandi hellinn fyrir byggðarráði Borgarbyggðar og þar voru engar athugasemdir gerðar við að byggð væri upp þjónusta á svæðinu sem tekin væri greiðsla fyrir. Þetta segir Björn Bjarki Þorsteinsson, forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar og nefndarmaður í byggðarnefnd.

Frétt mbl.is: Rukkaður fyrir að skoða Víðgelmi

Í gær fjallaði mbl.is um að maður sem ætlaði að berja hellinn augum ásamt fjölskyldu sinni hafi verið krafinn greiðslu fyrir að fara að hellisopinu. Sagði maðurinn að gjaldtaka sem þessi snerti viðkvæma taug og velti því upp hvort fara ætti að loka fleiri náttúruperlum.

Bjarki segir að þótt byggðarráð sveitarfélagsins hafi fengið kynningu á málinu hafi sveitarstjórn ekki fjallað formlega um málið eða tekið það til efnislegrar umræðu. Slíkt hafi heldur ekki verið gert almennt um aðgangsmál að náttúruperlum og hvort rukka eigi fyrir slíkt. Segir hann ólíklegt að sveitarfélagið muni blanda sér í þessa umræðu.

Björn Bjarki Þorsteinsson.
Björn Bjarki Þorsteinsson.


Hann segir sína persónulegu skoðun þó vera þá að landeigandi eigi rétt á því þegar hann byggi upp og geri út á ferðamennsku að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Fagni hann slíku framtaki. Hann tekur fram að fyrst þurfi Íslendingar þó í heild að klára umræðu um uppbyggingu innviða. „Við þurfum að þora og geta tekið þá umræðu,“ segir Bjarki og bætir við að þar skipti ekki máli hvort um sé að ræða skatta eins og náttúrupassa eða gjaldtöku á stöðunum sjálfum. Umræðan þurfi að eiga sér stað og niðurstaða að komast í málið.

Spurður út í fleiri náttúruperlur í Borgarbyggð og skoðun hans á að landeigendur taki gjald þar segir Bjarki að eðlismunur sé á milli staða. Þannig hafi til dæmis sveitarfélagið og ríkið sett talsverða fjármuni í að byggja upp stíga í kringum Grábrók og aðra staði í héraðinu. „Það horfir öðruvísi við að fara í gjaldtöku á slíkum stöðum,“ segir Bjarki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert