Leita enn mannsins

Leitarmenn á vettvangi við Sveinsgil.
Leitarmenn á vettvangi við Sveinsgil. Ljósmynd/Landsbjörg

Enn stendur yfir leit að erlendum ferðamanni sem féll ofan í á við Sveinsgil norðan Torfajökuls í gærkvöldi. Á annað hundrað björgunarsveitarmenn hafa verið við leit á svæðinu í nótt, en unnið er á vöktum og vinna um 60 manns hverju sinni að því að moka þéttum snjó ofan af og upp úr ánni.

Unnið var í alla nótt við að moka í gegnum ísbreiðuna til að komast niður að ánni sem maðurinn féll í.  Notast var við keðjusagir til að losa um ísinn og allan þann mannskap sem gat mokað og komið klaka og snjó frá slysstað.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var send aftur út í nótt til að aðstoða við leitina og hefur hún, samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, m.a. unnið við að ferja björgunarmenn og gögn til og frá slysstað.

Aðstæður til leitar eru bæði erfiðar og hættulegar.

Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu var maðurinn að ganga yfir snjóbrú ásamt öðrum manni er hún brotnaði undan honum með þeim afleiðingum að hann féll í ána. Hinn manninn sakaði ekki. 

Björgunarsveitir af Suðurlandi, Reykjanesi, Borgarfirði, Akranesi og höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út vegna leitarinnar, sem er ein stærsta og mannfrekasta aðgerð á þessum slóðum í langan tíma. Kafarar frá sérsveit Ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunni taka einnig þátt í leitinni.

Uppfært 6:55

Þórunn Inga Austmar sem er í svæðisstjórn björgunarsveitanna á Hellu, segir aðstæður á vettvangi hafa áfram verið erfiðar og krefjandi. „Það hefur lítið breyst í nótt nema það er verið að skipta út mannskap. Núna eru á milli 30-40 manns á vettvangi að grafa, en svo bíður mannskapur inni í Landmannalaugum eftir að verða fluttur á staðinn,“ segir Þórunn Inga.

Notast hefur verið við keðjusagir til að losa um ísinn og moka í gegnum ísbreiðuna. „Það voru gerðar tvær holur og ég var að heyra nú nýlega að þeir eru byrjaðir á þeirri þriðju.“

Þyrla Landhelgisgæslunnar tók þátt í aðgerðunum í nótt, en er nú farinn af vettvangi. Kafarar frá sérsveit Ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunni taka hins vegar enn þátt í leitinni.

Um 180 manns hafa tekið þátt í leitinni frá því hún hófst í gærkvöldi og segir Þórunn að ákveðið verði á vaktaskiptum klukkan átta  hvort fleiri verði kallaðir út. „Mér finnst þó líklegt að það verði kallað út ferskt fólk.“

map.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert