Hefði ekki fórnað öllu með svindli

Björn Steinbekk segist harma það að málið hafi farið á …
Björn Steinbekk segist harma það að málið hafi farið á þann veg sem raun ber vitni. Mynd/Björn Steinbekk

„Ég hef gengið í gegnum áföll sem ég óska engum en þetta er með því versta. Það er samt sem áður ekki aðalatriðið í þessu máli,“ segir Björn Steinbekk, sem komst í fréttir eftir að hafa selt miða á leik íslenska liðsins gegn Frakklandi á EM, en um 70 manns fengu miðana aldrei afhenta þrátt fyrir að hafa greitt fyrir þá.

Björn segist hafa verið svikinn af miðasöluaðilum sem hann keypti miðana af og hyggst senda þeim kröfugerð í lok vikunnar. Eftir að málið kom upp hafi hann misst mannorð sitt í einni svipan og segist hann harma það að málið skyldi fara á þann veg sem raun ber vitni.

Hann leggi mikla áherslu á að endurgreiða öllum þeim sem ekki fengu miðana sína, en fyrstu miðar voru endurgreiddir í gær. Mbl.is ræddi við Björn um málið.

Treysti því að miðarnir myndu berast

Björn segist hafa komist í samband við milligönguaðila um miðana í gegnum vin sinn sem hefur unnið með honum í áraraðir. Samskiptin hafi alfarið farið í gegnum áðurnefndan vin hans, þó svo að honum sjálfum hafi verið haldið upplýstum og hann fengið umbeðna staðfestingu á að miðarnir væru löglega fengnir, í tölvupósti sem hann hefur birt.

Milligönguaðilinn var Gaetano Marotta, framkvæmdastjóri fyrirtækisins Gama sport, en á heimasíðu fyrirtækisins kemur fram að fyrirtækið sé viðurkenndur samstarfsaðili FIFA og UEFA og hafi skipulagt fjölmarga viðburði á vegum samtakanna. Marotta hafi starfað í fjöldamörg ár í fótboltabransanum og sé jafnframt löggiltur fulltrúi hjá svissneska knattspyrnusambandinu (ASF). Þá er nafn Marotta á lista á heimasíðu FIFA yfir samstarfsaðila í Sviss.

Í fyrrnefndum tölvupósti kemur fram að miðarnir hafi upprunalega komið frá konu að nafni Nicole, sem er titluð sem framkvæmdastjóri miðasölu hjá UEFA. Í tölvupóstinum var hvorki eftirnafn né netfang hjá henni, og þegar mbl.is leitaði svara hjá UEFA á dögunum sagði fjölmiðlafulltrúi sambandsins að engin Nicole starfaði við miðasöluna.

Þegar Björn leitaði svara fékk hann hins vegar þær upplýsingar að fullt nafn hennar væri Nicole Werther og á Linkedin-síðu hennar kemur fram að hún hafi starfað hjá UEFA frá árinu 2013. Í tölvupóstssamskiptum kemur einnig annar miðasöluaðili við sögu að nafni David Lünenbürger. Á Linkedin-síðu hans kemur fram að hann hafi unnið að miðasölu í kringum EM í ár, í gegnum fyrirtækið Lagadrére Sports þar sem hann hefur starfað í tæp tvö ár.

Mbl.is hefur ítrekað reynt að ná sambandi við miðasöluaðilana þrjá, án árangurs. 

Ekkert bólaði á miðasöluaðilunum

Þegar til Parísar var komið hafi hann hins vegar ekkert bólað á miðasöluaðilunum. „Það var ekki um neina afhendingu að ræða þrátt fyrir ítrekuð loforð þar um. Ég fékk ekki miðana,“ segir Björn. Í kjölfarið hafi hann farið á fullt að reyna að útvega miða annars staðar frá til að reyna að bjarga því ástandi sem upp var komið. Tekist hafi að kaupa miðana af öðrum aðilum, en alls var um að ræða 458 miða.

„Ég fékk hins vegar hluta af þeim mjög seint og þess vegna þurfti ég að breyta afhendingarstað á miðunum og kom því seinna en lofað var á Stade De France,“ segir Björn.

Kýldu til hans og hótuðu honum lífláti

Eins og mbl.is hefur fjallað um kom upp mikil reiði hjá fólki sem keypt hafði miða af Birni þegar hann mætti á svæðið. Að sögn sjónarvotta sem mbl.is talaði við daginn eftir leikinn reyndu sumir að kýla til hans, og aðrir hótuðu honum lífláti.

„Eðlilega voru margir orðnir reiðir á því að bíða og andrúmslofið gerði okkur ómögulegt að koma miðum til fólks á skilvirkan hátt,“ segir Björn og heldur áfram: „Mín helstu mistök eru að hafa ekki fengið aðstoð lögreglu strax við að koma miðunum skilmerkilega út, en á endanum fékk ég þá aðstoð.“

Bakpoka með 60 miðum rænt

Ekki hafi það hins vegar bætt ástandið þegar bakpoka með rúmlega 60 miðum var rænt. „Það er til myndband af fólki að tína þá miða úr umslögum. Þetta bætti ekki ástandið,“ segir hann.

Á endanum tókst honum að afhenda 389 miða af þeim 458 sem voru seldir, og voru það því alls 69 sem ekki fengu miðana sína afhenta. Björn segist harma það að hafa ekki tekist að afhenda alla miðana. „Ég stóð með mörgum fyrir utan leikvöllinn þar til leikurinn var búinn og það er ömurlegt að hafa ekki getað gert betur við afhendingu miðana,“ segir hann.

Alls voru um 70 manns sem fengu miðana sína ekki …
Alls voru um 70 manns sem fengu miðana sína ekki afhenta þrátt fyrir að hafa greitt fyrir þá. AFP

Fyrstu miðar endurgreiddir í gær

Eins og mbl.is fjallaði um tilkynnti Björn fljótlega að hann myndi endurgreiða alla miðana sem ekki voru afhentir og fól hann Forum lögmannsstofu að annast samskipti varðandi kröfur vegna endurgreiðslu á miðum. Hann hafi gert ráð fyrir kröfum frá þeim rúmlega hundrað sem fengu ekki miða, en hins vegar hafi 318 kröfur borist. „Mestu skiptir fyrir mig að bæta þeim sem sannarlega fengu ekki miða á leikinn þann skaða með því að endurgreiða miðana.“

Fyrstu miðar voru endurgreiddir í gær, en þetta hefur Þorsteinn Einarsson, lögmaður hjá Forum lögmannsstofu, sem annast málið, staðfest í gegnum tölvupóst.

Aðspurður um næstu skref gagnvart miðasöluaðilunum segir Björn að lögmenn hafi tekið að sér að útbúa kröfugerð á þá sem lofuðu miðunum og staðfestu það í rituðu máli. „Tjónið þar er gríðarlegt,“ segir hann.

„Sónar mun mikilvægara en ég“

Eins og mbl.is greindi frá hefur Björn sagt af sér sem framkvæmdastjóri Sónar Reykjavík-tónlistarhátíðarinnar, en hann tilkynnti ákvörðun sína á Facebook eftir að málið kom upp. Aðspurður um þetta mál segir Björn að hátíðin muni halda sínu striki, og mikil vinna hafi farið í það mál síðustu daga til að tryggja hagsmuni samstarfsaðila og annarra sem hagsmuna hafa að gæta.

„Ég mun að sjálfsögðu ekki koma frekar að hátíðinni. Það segir sig sjálft og Sónar í mínum huga er mun mikilvægara en ég,“ segir hann. „Það er sárt en í augnablikinu, eftir alhæfingar um falsaða miða, handtöku af frönsku lögreglunni og að ég hafi vísvitandi svikið fólk, er ljóst að mínir dagar sem viðburðahaldari eru taldir. Það hafa aðilar tengdir mér tryggt.“

Fjarstæðukennt að vilja fórna öllu með því að svindla

En hvaða áhrif hefur þetta mál haft á líf þitt?

„Þegar maður í einni svipan missir mannorðið án þess að geta í raun borið hönd fyrir höfuð sér og allt sem maður hefur byggt upp síðustu ár er farið, þá kemur ákveðin ró á hugann. Aðalverkefnið síðustu daga hefur verið að reyna að bæta úr og bjarga því sem hægt er. Ég hef gengið í gegnum áföll sem ég óska engum en þetta er með því versta. Ég mun þegar öll kurl koma til grafar biðja fólk að skoða þau gögn og upplýsingar sem t.d. koma fram hér og á næstu vikum og spyrja sig af hverju maður sem hefur haft lifibrauð af því að selja miða á viðburði síðan hann var ungur maður skuli hafa ákveðið að ætla að fórna öllu með því að svindla. Slíkt er fjarstæðukennt,“ segir hann.

Aðspurður hvað taki við hjá honum í framhaldinu er svarið einfalt: „Lífið!“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert