Geta ekki sannreynt hvar dýrin enda

Ari er einn þeirra sem bjargað var af heimilinu.
Ari er einn þeirra sem bjargað var af heimilinu. Ljósmynd/ Villikettir

Matvælastofnun, sem fer með velferðarmál dýra, hefur ekki mannskap í að fylgja því eftir hvort dýr sem eigendum er gert að fjarlægja af heimilum sínum endi á viðunandi heimili eða séu skilin eftir á víðavangi.

Aðalsteinn Sveinsson, eftirlitsdýralæknir á Suðurnesjum og tímabundinn staðgengill héraðsdýralæknis, segist lítið geta sagt til um framvindu máls kattanna 100 og hundanna sjö sem fundust á einu og sama heimilinu, en að eiganda þeirra hafi verið veittur frestur til að bæta aðstæður af því að félagið Villikettir var búið að taka veikustu kettina.

„Litu svona þokkalega vel út“

MAST fékk ábendingu um slæmar aðstæður hundraðskattanna og hundanna sjö í lok mars. Farið var í eftirlitsferð í 11. apríl. Aðalsteinn þorir ekki að segja til um hvers vegna svo langur tími leið, enda hafði hann lítið haft með málið að gera, en nefnir að stofnuninni berist mikið af ábendingum sem tímafrekt sé að sinna.

„Konurnar í Villiköttum höfðu verið í sambandi áður og þegar farið var í þessa ferð voru þær búnar að taka stóran hluta af dýrunum, eða alla vega þau dýr sem litu verst út. Í framhaldinu var farið yfir aðbúnað og aðstæður og skrifuð skýrsla um það. Í framhaldi af því var konunni sent bréf þar sem henni er veittur andmælafrestur til þess að svara fyrir þau atriði sem komu fram í skýrslunni og veittur frestur til að lagfæra það sem betur mátti fara.“

Embla litla var með slæma augn­sýk­ingu sem át upp í …
Embla litla var með slæma augn­sýk­ingu sem át upp í henni aug­un. Hún hef­ur nú fundið heim­ili. Ljósmynd/ Villikettir

Nú hefur konan orðið uppvís að svipuðu máli áður þar sem öll dýrin voru tekin af henni og þeim lógað. Er rétt að veita henni frest til að bæta úr fyrst hún er að brjóta af sér í annað skipti?

„Ég held að það sé bara lögfræðilegt atriði að fólk hefur frest. Málið er það að á þeim tíma sem eftirlitsaðilarnir koma þá er búið að taka öll dýrin sem verst litu út. Þau dýr sem eftir voru litu svona þokkalega vel út svo það var tekin ákvörðun um að veita henni þennan frest til að andmæla þeim aðgerðum sem í vændum voru.“

Þú segir andmæla, hvað er það í rauninni sem hún getur gert?

„Það koma fram í skýrslunni einhver frávik á aðbúnaði og aðstæðum á heimilinu. Hún getur lagfært það, hún getur losað sig við dýrin – annaðhvort inn á heimili eða til einhverrar stofnunar sem er tilbúin að taka við þeim, hún fékk frest til að andmæla þessum aðgerðum sem síðan voru í vændum ef hún gerði ekkert.“

Ef viðkomandi kemur dýrunum fyrir annars staðar, sannreynir MAST að viðkomandi hafi komið þeim fyrir á heimili eða öðrum viðeigandi stað en ekki úti á víðavangi?

„Það held ég að sé erfitt að eiga við. Við höfum ekki mannskap í það og eigum svo sem í þessu tilviki ekki von á því að hún myndi gera það.“

Hvaða verkfæri hefur MAST til að bregðast við eftir að þessum fresti lýkur og ekki hefur ræst úr?

„Það er til dæmis vörslusvipting dýranna, þau eru þá tekin af viðkomandi. Þá er reynt að koma þeim einhvers staðar fyrir í fyrstu. Ég held að það sé augljóst að stofnunin hefur ekkert mörg úrræði í því.“

Og þá, ef ekki gengur að koma dýrunum fyrir, er [dýrunum] lógað?

„Það gæti orðið niðurstaðan.“

Villikettir segja aðstæður á heimilinu með öllu óboðlegar en MAST …
Villikettir segja aðstæður á heimilinu með öllu óboðlegar en MAST segir kettina sem eftir voru hafa verið í þannig ástandi að hægt væri að veita eigandanum frest. Ljósmynd/ Villikettir

Vill ekki segja til um kæru eða styrk

Aðalsteinn segist ekki geta sagt til um hvort algengasta niðurstaðan í áþekkum málum sé að lóga dýrunum. Til allrar hamingju komi ekki mörg áþekk mál inn á borð MAST.

Hann segist ekki treysta sér til að segja til um hvort konan verði kærð fyrir dýraníð, enda verði það ekki hans ákvörðun heldur héraðsdýralæknis, sem er í sumarfríi sem stendur.

Þá segist hann ekki geta sagt til um hvort héraðsdýralæknir eða aðrir á vegum MAST hafi verið í sambandi við viðeigandi félagsmálastofnun vegna konunnar.

Þá segir hann það annarra að taka afstöðu til tillögu stjórnar Villikatta, um að það taki að sér umönnun kattanna gegn því að fá það fjármagn í styrk sem stofnunin hefði annars kostað til við lógun þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert