53 veitt hæli fyrri hluta árs 2016

Grafík/Útlendingastofnun

Á fyrstu sex mánuðum þessa árs afgreiddi Útlendingastofnun nærri jafnmargar hælisumsóknir og allt árið í fyrra. 53 einstaklingum var veitt hæli eða önnur vernd en í þessum hópi voru Írakar fjölmennastir, alls 17 talsins. Fjölmennastir í hópi þeirra sem hafa sótt um vernd það sem af er ári eru Albanar.

274 einstaklingar frá 42 löndum sóttu um vernd á Íslandi á fyrstu sex mánuðum ársins 2016. Á sama tíma á síðasta ári höfðu 86 einstaklingar sótt um vernd,“ segir í frétt á vef Útlendingastofnunar.

Niðurstaða fékkst í 310 málum, en í fyrra nam heildarfjöldi afgreiddra mála 323.

„Af málunum 310 voru 159 mál tekin til efnislegrar meðferðar, 103 mál voru afgreidd með endursendingu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, 14 umsækjendur höfðu þegar fengið vernd annars staðar og 34 umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka. 

Af þeim 159 málum sem tekin voru til efnislegrar meðferðar lauk 106 málum með ákvörðun um synjun og 53 málum með ákvörðun um veitingu verndar, viðbótarverndar eða dvalarleyfis af mannúðarástæðum. Flestar veitingar voru til umsækjenda frá Írak (17), Íran (10), Sýrlandi (9) og Afganistan (5) en flestir þeirra sem fengu synjun komu frá Albaníu (60), Makedóníu (21), Kósovó (4) og Serbíu (4).“

Meðalmálsmeðferðartími afgreiddra mála á öðrum ársfjórðungi 2016 var 102 dagar.

Nánari upplýsingar má finna á vef Útlendingastofnunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert