Voru hætt að leita þegar maðurinn fannst

Frá vettvangi í gær.
Frá vettvangi í gær. Ljósmynd/Otti Sigmarsson

„Ég er frekar búinn á því, þetta er svolítið eins og maður hafi orðið fyrir lest,“ segir björgunarsveitarmaðurinn Otti Sigmarsson sem tók þátt í aðgerðum í Sveinsgili í gær. Eins og kunnugt er fór þar fram í fyrradag og gær umfangsmikil leit að frönskum ferðamanni sem féll þar ofan í á.

Otti var björgunarstjóri á vettvangi í gær en hann hefur verið björgunarsveitarmaður í Grindavík í fjórtán ár. „Við höfum alveg fengið okkar skammt af erfiðum aðgerðum en þetta var mjög erfitt. En þarna voru allir í sama liðinu, björgunarsveitarfólk úr fjórum sveitum og fólk frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, lögreglunni og Landhelgisgæslunni. Það var bara eins og þetta fólk hefði alltaf unnið saman,“ segir Otti en um 30 manns voru að störfum á svæðinu þegar hann var þar í gær. „Við erum þarna í gilinu frá klukkan þrjú eða fjögur um daginn og erum síðust í burtu um kvöldið.“

Otti segir að í gær hafði rignt stanslaust og fólk hafi verið orðið vel blautt þegar aðgerðum lauk. 

Áfall að horfa upp á hjartastoppið

Eins og greint hefur verið frá í dag fékk einn björgunarsveitarmaðurinn hjartastopp á staðnum í gærkvöldi. Otti segir mikið áfall að horfa upp á það. „Það sem var ótrúlegt var að þyrlan er þá akkúrat á staðnum. Henni fylgir mikill hávaði og það var erfitt fyrir fólk að eiga samskipti um hvað var að eiga sér stað.“

Hann segir það hafa eflaust aðeins verið nokkrar sekúndur þegar allir í hópnum voru að gera sér grein fyrir hvað var í gangi en það leið eins og óratími. „Þyrlan hættir strax því sem hún var að gera til að geta lent og komið búnaði til okkar, þeir eru náttúrulega með hjartastuðtæki og súrefni. Ég hafði orð á því á fundi í gærkvöldi að trúlega hefðum við sett heimsmet í boðhlaupi,“ segir Otti. „Þyrlan lenti nokkur hundruð metra frá þar sem maðurinn var og menn bara skiptu sér og ómeðvitað tóku hver við af öðrum að fara með dótið niður eftir að manninum.“

Eins og greint hefur verið frá náðist að endurlífga manninn á staðnum og var farið með hann í þyrluna sem flutti hann til Reykjavíkur. Otti segir að það hafi breytt öllu að geta endurlífgað manninn á staðnum. „Um leið og þyrlan var farin og hávaðinn sem fylgir henni þá brutust út tilfinningar sem er erfitt að útskýra. Allir voru glaðir yfir því að þetta gekk en líka ringlaðir yfir því sem gerðist. Þarna birtist allur skalinn.“

Ljósmynd/Otti Sigmarsson

Voru hætt að leita þegar maðurinn fannst

Hann á erfitt með að gera sér grein fyrir því hvað það leið langur tími frá því að þyrlan fór þar til franski ferðamaðurinn fannst. Það var þó hálfgerð tilviljun að hann fannst á þessum tímapunkti þar sem fólk var byrjað að taka saman og skipuleggja leit morgundagsins. „Við tökum búnaðinn og höldum áfram að ferja hann upp á þyrlupallinn og notum síðustu orkudropana í það. Þá ákveða kafararnir að kíkja aðeins betur þarna inn. Þegar þeir fóru skyndilega að veifa og kalla vissum við að maðurinn væri fundinn,“ segir Otti.

Þá tók við töluverð aðgerð við að ná manninum upp en hann var langt undir ísnum. Þá þurfti að ná í keðjusagir og fleira til þess að brjóta upp ísinn en um hálftíma tók að ná manninum upp. „Það áttu allir inni fyrir þessu, þarna vorum við aðeins búin að hlaða batteríin, drekka kakó og koma okkur í gírinn aftur. Við keyrðum þetta bara í gang og kláruðum þetta með því markmiði að það þyrfti ekki að koma aftur í dag.“

Aðgerðum á staðnum lauk milli klukkan 22 og 22:30. Þá átti eftir að fara nokkrar ferðir í þyrlunni með búnað, sækja bíla og fara svo loks með búnaðinn í Landmannalaugar. Otti, sem býr í Grindavík, var ekki lagstur í rúmið fyrr en um klukkan fjögur í nótt.

Eins vel heppnað og það gat orðið

Aðspurður hvernig andlega hliðin væri eftir svona dag segir hann að um leið og hópurinn frétti að maðurinn sem fékk hjartastoppið væri við góða heilsu í Reykjavík var það mikill léttir. „Það var einfaldlega allt gert rétt, byrjað strax frá fyrstu sekúndu,“ segir Otti. „En það að finna ferðamanninn látinn í ánni er eitthvað sem við þekkjum og er hluti af starfinu.“

Hópnum var boðin áfallahjálp á Hellu í nótt sem þau þáðu. Þar hittu þau m.a. lækni og var vel farið yfir málið. „Það voru allir kátir með vel heppnaðan dag en það var vissulega sorglegt að það hafi einn látist. En hann fannst og nú er hægt að koma honum til fjölskyldu hans. Þannig að þetta var eins vel heppnað og það gat orðið.“

Slysstaðurinn og holurnar þrjár sem grafnar voru.
Slysstaðurinn og holurnar þrjár sem grafnar voru. Ljósmynd/Otti Sigmarsson
Hluta af björgunarbúnaðinum sem borinn var upp erfiða leið að …
Hluta af björgunarbúnaðinum sem borinn var upp erfiða leið að slysstað. Ljósmynd/Otti Sigmarsson
Horft frá þyrlupallinum niður Sveinsgilið, í fjarska sést skaflinn og …
Horft frá þyrlupallinum niður Sveinsgilið, í fjarska sést skaflinn og menn á honum og til hægri má sjá snjóhengjuna sem gengið var eftir og brattann niður að skaflinum, Ljósmynd/Otti Sigmarsson
Otti ásamt syni sínum í göngu á Fimmvörðuhálsi.
Otti ásamt syni sínum í göngu á Fimmvörðuhálsi. Ljósmynd/Úr einkasafni
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert