Krefjast afsagnar Gunnars Braga

Félagsmenn Hrollaugs á Hornafirði.
Félagsmenn Hrollaugs á Hornafirði. Ljósmynd/Vigfús Þ. Ásbjörnsson

Félagar í Smábátafélaginu Hrollaugi hafa lýst yfir vantrausti á Gunnar Braga Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og krefjast þess að hann láti af embætti eða að hann verði látinn víkja úr embætti.

„Gunnar Bragi hefur sýnt það með gjörðum sínum að hann stuðlar að og hvetur til óeiningar og misskiptingar innan strandveiðikerfisins á Íslandi. Gunnar Bragi ákvað það einn manna og gegn vilja þingmanna þjóðarinnar að færa afkomu 125 strandveiðisjómanna suðursvæðis og fjölskyldna þeirra í sitt eigið kjördæmi. Sjávarútvegráðherra hefur klárlega misnotað vald sitt í eigin þágu sem er gríðarlega alvarlegt mál sem við látum ekki líðast,“ segir í yfirlýsingu félagsins, sem birtist fyrst á vef Landssambands smábátaeigenda.

Félagsmenn Hrollaugs segjast ekki treysta ráðherra fyrir völdum yfir sameiginlegri auðlend Íslendinga og afkomu strandveiðimanna. Þeir saka hann um að tala niður til þeirra og segja að hjá honum megi skynja andúð á strandveiðikerfinu sjálfu.

„Þú hefur sýnt það og sannað að þú ert maður sundrungar og þannig sjávarútvegsráðherra viljum við ekki sjá hér á Íslandi.  Það er hægt að gera strandveiðikerfið jafngott fyrir alla strandveiðimenn. Til þess þarf einungis vilja og hann hefur þú ekki. 

Strandveiðimenn á Íslandi! Sameinumst um að gera strandveiðikerfið jafngott fyrir okkur alla hvar sem við erum. Þannig munum við geta staðið saman í uppbyggingu á góðu kerfi með mannsæmandi möguleikum fyrir okkur alla. Gunnar Bragi Sveinsson, farðu strax burt, við höfum ekkert með svona valdahroka að gera eins og þig. Þú veldur ekki starfinu og hefur sýnt okkur hvaða mann þú hefur að geyma,“ segir í yfirlýsingunni, sem samþykkt var á fundi félagsins í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert