Píratar skipta um listabókstaf: P í stað Þ

Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Pírata.
Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Pírata. Ljósmynd/Píratar

Stjórnmálaflokkurinn Píratar hefur fengið úthlutað listabókstafnum P og kemur hann í staðinn fyrir listabókstafinn Þ, sem flokkurinn bauð fram undir í síðustu alþingiskosningum. Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Pírata, segir að um taktíska breytingu sé að ræða. 

„P er fyrsti stafurinn í nafninu okkar og það liggur beinna við að nota P heldur en Þ,“ segir hún. Ástæða þess að flokkurinn hafi ekki boðið fram undir listabókstafnum P í síðustu alþingiskosningum hafi verið sú að hann var ekki laus. 

Lýðræðishreyfingin bauð fram árið 2009 undir listabókstafnum P og var því með hann „frátekinn“ í síðustu alþingiskosningum, þar sem ekki má nota sama listabókstafinn í tveimur kosningum í röð nema um sama stjórnmálaflokk sé að ræða. 

„Nú má segja að við séum búin að flagga í heila stöng. Þ er svolítið eins og fáni flaggaður í hálfa, en nú drögum við alveg að húni og ætlum að fara af krafti inn í kosningabaráttuna,“ segir Sigríður.

Spurð um það hvort breytingin muni ekki rugla kjósendur svarar hún neitandi. „Ég held að þvert á móti muni þetta bara hjálpa fólki. Við munum auðvitað kynna þetta eins og við getum og allt efni sem fer frá okkur hér eftir verður merkt X-P,“ segir hún og bætir við að nú bíði flokksmenn bara eftir dagsetningu á kosningarnar. 

„Við vonumst eftir að fá að vita kosningadag sem fyrst. Það er mikil undirbúningsvinna í gangi hjá okkur núna en við viljum geta keyrt af stað. Það er óþægilegt að vaða áfram í óvissu.“

E, N, O, U, X, Y, Æ og Ö lausir

Píratar eru þriðji flokkurinn sem fær úthlutað listabókstaf á kjörtímabilinu, en Viðreisn fékk úthlutað listabókstafnum C og Flokkur fólksins fékk F.

Fimmtán lista­bók­staf­ir eru „frá­tekn­ir“ eft­ir síðustu þing­kosn­ing­ar. Sam­kvæmt lög­um um kosn­ing­ar til Alþing­is er stjórn­mála­sam­tök­um heim­ilt að sækja um lista­bók­staf hvenær sem er á yf­ir­stand­andi kjör­tíma­bili, en halda hon­um aðeins ef þau bjóða fram í næstu kosn­ing­um. Fimmtán flokk­ar sem fengu út­hlutað lista­bók­staf fyr­ir síðustu þing­kosn­ing­ar, sem fóru fram 27. apríl 2013, buðu sann­ar­lega fram og halda því sín­um lista­bók­staf að óbreyttu. 

Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá inn­an­rík­is­ráðuneyt­inu er hægt að stofna stjórn­mála­sam­tök og sækja um lista­bók­staf og bjóða fram allt að þrem­ur dög­um áður en fram­boðsfrest­ur renn­ur út og fimmtán dög­um áður en kosn­ing­ar fara fram.

Íslenska staf­rófið sam­an­stend­ur af 32 bók­stöf­um en til að fyr­ir­byggja rugl­ing hef­ur ekki tíðkast að út­hluta brodd­stöf­um sem lista­bók­stöf­um. Ef horft er til þess að fimmtán stjórn­mála­hreyf­ing­ar „eiga“ enn bók­staf frá síðustu kosn­ing­um og að þremur hef­ur verið út­hlutað, eru því átta á lausu. Þeir eru: E, N, O, U, X, Y, Æ og Ö.

Frétt mbl.is: E, F, N, O, P, U, X, Y, Æ og Ö

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert