Hræið á leið til Reykjavíkur

Birnan er nú á leið til höfuðborgarinnar, þar sem hún …
Birnan er nú á leið til höfuðborgarinnar, þar sem hún verður krufin. Líklegt er að dýrið verði stoppað upp. mbl.is/Björn Jóhann

Unnið er að því að flytja hræ bjarnarins sem felldur var í nótt til Reykjavíkur og er það væntanlegt suður um miðjan dag í dag. Verður það flutt til Náttúrufræðistofnunar Íslands, þar sem dýrið verður krufið og sýni tekin úr því.

Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, segir dýrið vera birnu, sem virðist hafa verið vel á sig komin, ekki sé hægt að fullyrða neitt um það fyrr en krufning hefur farið fram. Líklega hafi dýrið synt til Íslands frá Grænlandi og sé það þá af grænlenskum stofni, sem Jón segir í nokkuð miklu jafnvægi.

Loftslagsbreytingar gætu ráðið því að dýrin leiti hingað til lands, en þær hafa mikil áhrif á búsvæði bjarnanna sem fara minnkandi. Það megi því búast við því að komur ísbjarna haldi áfram, miðað við loftslagsbreytingarnar.

Uppstoppuðu birnirnir þrír

Náttúrufræðistofnun hefur látið stoppa upp þrjá af þeim fjórum björnum sem komið hafa hingað til lands á öldinni. Segir Jón Gunnar að stofnunin muni ganga frá hræi birnunnar sem væntanlegt er til hennar á þann hátt að hægt verði að stilla því upp síðar, þó að engin ákvörðun hafi verið tekin um slíkt enn þá.

Frétt mbl.is: Björninn í nótt sá fimmti síðan 2008

Uppstoppuðu birnirnir þrír eru allir í útláni frá stofnuninni; einn í Þistilfirði, einn á Sauðárkróki og einn á Hafíssetrinu á Blönduósi. Dýrið sem fellt var á Hornströndum 2011 er enn í frysti, en Jón Gunnar á von á því að það verði stoppað upp síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert