Stórfelld brot á rétti starfsmanna

„Þó svo framkvæmdirnar gangi almennt mjög vel þá eru því …
„Þó svo framkvæmdirnar gangi almennt mjög vel þá eru því miður dæmi um að menn séu að reyna að brjóta íslensk lög og íslenska kjarasamninga,“ segir Aðalsteinn í samtali við Morgunblaðið.

Borið hefur á því að undirverktakar við uppbyggingu vinnusvæðis á Bakka hafi brotið íslensk lög og kjarasamninga. Þetta segir Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður stéttarfélagsins Framsýnar. Dæmi séu um að starfsmenn fái greitt í kringum 150 þúsund krónur á mánuði fyrir 120-130% starfshlutfall.

„Þó svo framkvæmdirnar gangi almennt mjög vel þá eru því miður dæmi um að menn séu að reyna að brjóta íslensk lög og íslenska kjarasamninga,“ segir Aðalsteinn í samtali við Morgunblaðið.

Frétt mbl.is: 150 þúsund fyrir 130% starf

Að hans sögn funduðu fulltrúar Framsýnar með lögreglunni á Norðurlandi eystra í síðustu viku, til að fara yfir mál sem varða alvarleg brot á vinnumarkaði á félagssvæðinu.

„Við þurfum svolítið að spila saman þegar við fáum mál á okkar borð þar sem lögum er ekki fylgt,“ segir Aðalsteinn og bætir við að í flestum tilvikum sé um að ræða erlenda verktaka.

„Við erum að sjá ótrúlegustu mál, til dæmis má nefna fyrirtæki sem ætlaði sér að borga starfsmönnum 588 krónur á tímann og fylla svo upp í lágmarkslaunin með dagpeningum, til að sleppa sem billegast.“

Þá segir Aðalsteinn að til hans hafi komið fjórir erlendir starfsmenn um síðustu helgi, sem sögðust ekki fá launaseðla eða aðrar haldbæra staðfestingu á greiðslu launa sinna.

„Þeir vissu alveg af hverju, því þá gætu þeir farið með málið til okkar.“

150 í stað 400 þúsund króna

Og einhver fyrirtæki virðast hafa ríka ástæðu til að leyfa ekki stéttarfélaginu að sjá launaseðla starfsmanna sinna.

„Ég reiknaði þetta út hjá nokkrum um daginn sem áttu að vera með í kringum 400 þúsund krónur í laun á mánuði en voru með um 150 til 160 þúsund fyrir fulla vinnu. Þarna er eitthvað mikið að og þetta er eitt þeirra atriða sem við höfum gert alvarlegar athugasemdir við.“

Mikil uppbygging á sér nú stað á svæðinu í kringum Húsavík og því í mörg horn að líta að sögn Aðalsteins.

„Hér eru hafnarframkvæmdir, bygging stöðvarhúss, línulögn upp á 61 kílómetra, auk þess sem verið er að bora eftir heitu vatni á Þeistareykjum og þá er úti á Bakka verið að reisa yfir þrjátíu byggingar.“

Vandann segir hann þó einskorðast við undirverktakana og að gott samstarf hafi tekist með aðalverktökum og verkkaupum, Vegagerðinni, Landsneti og Landsvirkjun.

„Þeir hafa gefið það út að hér skuli allt vera í lagi og uppi á borðum. Við fáum góða hvatningu frá þeim og það er til fyrirmyndar. Við tökum þetta föstum tökum, það er bara þannig. Hér kemst enginn upp með neitt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert