Elliði nýtur 61% stuðnings

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. mbl.is/Árni Sæberg

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, nýtur meiri stuðnings meðal sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi en Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra og núverandi oddviti flokksins í kjördæminu. Þetta er niðurstaða könnunar sem stuðningsmenn Elliða létu gera.

Í fréttatilkynningu frá stuðningsmönnum Elliða spurði Maskína út í prófkjör Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi í haust. Úrtak var 529 kjósendur í Suðurkjördæmi. Könnunin var lögð fyrir þjóðgátt Maskínu á netinu. Íslendingar af báðum kynjum á aldrinum 18-75 ára í Suðurkjördæmi tóku þátt.

Spurt var:

1.Hvort vilt þú að Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum eða Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra leiði lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í næstu Alþingiskosningum?

2. Værir þú líklegri eða ólíklegri til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í næstu Alþingiskosningum ef Elliði Vignisson myndi leiða listann í Suðurkjördæmi en ekki Ragnheiður Elín Árnadóttir?

Frétt mbl.is: Verð ekki bæjarstjóri að eilífu

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar vilja 61% þeirra sem tóku afstöðu heldur að Elliði leiði lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi en Ragnheiður Elín. Þá sögðu 67,5% aðspurðra að þeir væru líklegri til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef Elliði leiddi listann í stað Ragnheiðar.

„Í ljósi þessa afgerandi stuðnings og válegrar stöðu Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu sem og á landsvísu viljum við, stuðningsmenn Elliða Vignissonar, hvetja hann eindregið til þess að gefa kost á sér í fyrsta sætið í komandi prófkjöri og leiða Sjálfstæðismenn í kjölfarið til sigurs í kjördæminu,“ segir í fréttatilkynningu frá stuðningsmönnum Elliða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert