Fer Reykjavíkurmaraþon í hjólastól

Gunnar Karl ætlar að rúlla sér 10 km á hjólastólnum …
Gunnar Karl ætlar að rúlla sér 10 km á hjólastólnum í Reykjavíkurmaraþoninu. /Hlaupastyrkur

Eyjamaðurinn Gunnar Karl Haraldsson ætlar að rúlla sér 10 kílómetra á hjólastólnum sínum í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst. Gunnar er 22 ára en þegar hann var 18 þurfti að fjarlægja vinstri fót hans. Frá barnæsku hafði hann glímt við erfiðan tauga­sjúk­dóm en hann hefur notast við hjólastól síðan fóturinn var tekinn af við hné.

Morgunblaðið fjallaði um sögu Gunnars

Gunnar safnar styrkjum fyrir Reykjadal, sumarbúðir fyrir fatlaða. „Það er í rauninni bara ekki hægt að lýsa því,“ segir Gunnar, spurður hvaða þýðingu Reykjadalur hefur fyrir hann. Þetta er fyrsta sumarið síðan 2004 sem Gunnar er ekki að fara í Reykjadal og vill hann því gefa til baka til að þakka fyrir sig.

Þetta er í fyrsta sinn sem hann tekur þátt í keppni sem þessari á hjólastólnum og hefur hann aldrei áður farið þessa vegalengd í einum rykk á stólnum. „Ég er ekki með nein handföng á hjólastólnum eða neitt þannig að einhver geti ýtt mér,“ segir Gunnar sem fer 10 kílómetrana á handaflinu einu. „Ég er byrjaður að æfa núna, ég fór 5 km í gær á hálftíma, þetta er að koma,“ segir Gunnar en hann æfir sig gjarnan inni í Herjólfsdal þar sem hann ýtir sér hringinn. 

Gunnar Karl á námskeiði Þekkingarmiðstöðvar Sjálfsbjargar í hjólastólafærni.
Gunnar Karl á námskeiði Þekkingarmiðstöðvar Sjálfsbjargar í hjólastólafærni. /Hlaupastyrkur

Í ágúst flytur Gunnar til Reykjavíkur þar sem hann hefur nám í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands. „Ég hef bara sjaldan verið betri,“ segir Gunnar sem er vel stemmdur fyrir Reykjavíkurmaraþoninu en hann stefnir á að safna 300.000 krónum fyrir Reykjadal og kveðst nokkuð bjartsýnn á að ná markmiðinu.

Reykja­vík­ur­m­araþon Íslands­banka fer fram 20. ág­úst næst­kom­andi. Hægt er að heita á Gunnar Karl í gegn­um heimasíðu Hlaupa­styrks. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert