Skilti sett upp við Reykjanesbraut

Annað skiltanna ásamt hluta hópsins sem stóð fyrir uppsetningu þeirra.
Annað skiltanna ásamt hluta hópsins sem stóð fyrir uppsetningu þeirra. Ljósmynd/Eyþór Sæmundsson

Tveimur skiltum var komið upp við Reykjanesbraut í dag, sem vekja eiga athygli á hættunni sem fylgir akstri á veginum. Hópurinn sem kom upp skiltinu berst fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar og heldur úti Facebook-hópnum „Stopp hingað og ekki lengra!“, en rúmlega 16 þúsund manns eru í honum.

Vegagerðin og stjórnvöld ættu að vera þakklát

Atli Már Gylfason, sem situr í framkvæmdahópi hópsins ásamt 12 öðrum, segist ekki eiga von á því að skiltin verði tekin niður, en hópurinn hafði ekki fengið leyfi fyrir að setja þau upp. „Ég trúi því ekki. Meðbyrinn sem við höfum fengið, bæði í þessum Facebook-hópi og úti í þjóðfélaginu, er slíkur að ég trúi því ekki að einhver komi til með að taka þessi skilti niður. Þessi skilti eru til að vekja athygli á og vekja ökumenn til umhugsunar um þá kafla sem þeir eru að fara að aka um.“

Unnið að uppsetningu skiltanna.
Unnið að uppsetningu skiltanna. Ljósmynd/Eyþór Sæmundsson

Skiltin eru bæði á íslensku og ensku, en hópurinn fékk þau ókeypis með aðstoð fyrirtækja í Reykjanesbæ sem útbjuggu þau. Atli segir skiltin ekki vera fyrir neinum, þar sem þau standi úti í vegkanti og í raun og veru ættu Vegagerðin og íslensk stjórnvöld að vera þakklát fyrir að svona skilti séu komin upp. „Það eru þrenn stórhættuleg vegamót á þessum kafla sem skiltin ramma inn og þar eru bílar að þvera veginn þar sem verið er að keyra á 90 kílómetra hraða.“

„Það má ekki gleyma því að Reykjanesbrautin er þannig séð komin inn í byggð í Reykjanesbæ með tilkomu gamla varnarliðssvæðisins sem er Ásbrú í dag. Þar eru komnir nokkur þúsund íbúar.“

Funda með ráðherra á morgun

Á morgun mun hópurinn funda með innanríkisráðherra og segir Atli fólk hlakka til fundarins. Næsta skref verði síðan að funda með öllum þingmönnum Suðurkjördæmis og hefur hópurinn boðað þá á fund í byrjun ágúst, en Atli segir að þegar hafi hann átt góð samtöl við nokkra þingmenn.

Engin ákvörðun hafi verið tekin um frekari aðgerðir enn, enda vilji hópurinn fyrst sjá hvað kemur út úr fundinum með ráðherra og þingmönnum. „Við vinnum þetta hægt en örugglega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert