Aspir farnar að trufla flugumferð

Aspirnar í Hljómskálagarðinum blasa við þegar horft er þangað af …
Aspirnar í Hljómskálagarðinum blasa við þegar horft er þangað af norður-suður flugbraut Reykjavíkurflugvallar. Aðflugsljós í forgrunni. mbl.is/Árni Sæberg

Trjágróður hefur tekið vel við sér í hlýindum undanfarinna ára. Nýlega sögðum við frá því að til stæði að fella tré í Öskjuhlíð í þágu flugstarfseminnar á vellinum. Borgin og Isavia ætla að gefa sér sumarið til að fara betur yfir stöðuna á trjánum í Öskjuhlíð. Ekki er búið að tímasetja þær aðgerðir en þær gætu orðið með haustinu.

En vandamálið er ekki einskorðað við Öskjuhlíðina, því trén í Hljómskálagarðinum hafi vaxið svo mikið, að þau eru farin að nálgast aðflugslínuna inn á norður/suður-flugbrautina.

Í Hljómskálagarðinum snýst þetta um örfáar aspir sem mögulega mætti lækka en yrðu að öðrum kosti felldar að sögn Þórólfs Jónssonar, deildarstjóra náttúru og garða hjá Reykjavíkurborg.

Fram hefur komið hjá Árna Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Flugfélags Íslands, að hæð trjánna í Öskjuhlíð hafi í einstaka tilfellum haft áhrif á flutningsgetu flugvéla félagsins og ekki hafi verið hægt að taka með alla farþega sem annars hefðu farið í flugið. Þetta gerist sem betur fer ekki oft, en við vissar aðstæður skapi trén vandamál.

Trjárækt hófst í Öskjuhlíð um 1950 að frumkvæði borgaryfirvalda. Varla hefur hvarflað að frumkvöðlunum þá að trén ættu eftir að hafa áhrif á flugstarfsemina á Reykjavíkurflugvelli áratugum síðar. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert