Færði Lars skopmynd að kveðjugjöf

Teikning/Gunnar Júlíusson

„Þetta var svona draumurinn, að hlaupa í burtu með bikarinn,“ segir Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, um skopmynd sem hann færði Lars Lagerbäck, meðþjálfara sínum, að kveðjugjöf skömmu fyrir starfslok hans. 

Á myndinni sést hvar þjálfararnir tveir hlaupa á brott með Evrópubikarinn, en hana teiknaði Gunnar Júlíusson, vinur Heimis og skólabróðir úr Vestmannaeyjum.

„Ég hef náttúrulega séð verk eftir hann sem eru mjög flott og ég ætlaði alltaf að gefa kallinum einhverja minningu héðan um samstarfið,“ segir Heimir í samtali við mbl.is, en hann afhenti Lars myndina áður en út var haldið á Evrópumótið í Frakklandi.

„Það var bara svona í rólegheitunum hér heima, við tveir, svo hann gæti farið með hana beint til Svíþjóðar en þyrfti ekki að þvælast með hana í gegnum Frakkland.“

Heimir og Lars komu liðinu í átta liða úrslit á …
Heimir og Lars komu liðinu í átta liða úrslit á Evrópumótinu í sumar. AFP

„Erfitt að lesa kallinn“

Heimir segist halda að Lars hafi tekið myndinni vel.

„Það er alltaf erfitt að lesa kallinn,“ segir Heimir og hlær við. „Ég reyndar sá ekki þegar hann tók pakkann upp, ég bara rétti honum þetta og sagði honum að taka þetta upp þegar hann kæmi til Svíþjóðar. Hann gerði það reyndar áður en við fórum út og hann var glaður að sjá þetta.“ 

Heimir segir að meðan á mótinu stóð hafi honum stundum verið hugsað til myndarinnar.

„Þetta var auðvitað allan tímann draumurinn.“

Gat enn reynst sannspár

Gunnar teiknari segir myndina, sem er 50 sinnum 40 sentimetrar, ekki hafa mátt vera minni þar sem mikið sé að gerast á henni. Fékk hann góðar viðtökur á Facebook þegar hann deildi myndinni á listasíðu sinni.

„Þeir hlaupa þarna yfir dómarann og stela bikarnum, á meðan Eyjalundinn flýgur með Heimi og brjálaðir þjálfararnir standa á hliðarlínunni. Pælingin var að reyna að setja smá húmor í þetta,“ segir Gunnar, en þegar hann teiknaði myndina skömmu fyrir mótið gat hann enn reynst sannspár.

„Það er einmitt málið, það var aldrei að vita. Þess vegna hafði ég nú andstæðinginn Þjóðverja og Íslendinginn með víkingahjálm að berja á honum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert