Tveir Íslendingar keppa í dag

Haraldur í keppninni í morgun.
Haraldur í keppninni í morgun. Ljósmynd/Berglind Sigmundsdóttir

Einn Íslendingur hefur hafið keppni á heimsleikunum í crossfit, sem hófust í Carson í Kaliforníu í dag. Haraldur Holgersson úr Crossfit XY keppti í fyrstu keppnislotu í unglingaflokki 16-17 ára, en hann er fyrstur Íslendinga til að keppa í unglingaflokki á heimsleikum.

Haraldur stóð sig vel og er í 5. sæti eftir keppni í fyrstu þrautabrautinni, sem innihélt m.a. magaæfingar, svokallað tvöfalt sipp, kaðlaklifur og réttstöðulyftur. Hann mun keppa aftur síðar í kvöld, klukkan 21:40 á íslenskum tíma.

Annar Íslendingur keppir á þessum fyrsta keppnisdegi heimsleikanna, en Hilmar Þór Harðarson úr Crossfit sport er við það að hefja keppni í svokölluðum Masters Men-flokki, 55-59 ára. Hann mun keppa aftur klukkan 23:20 að íslenskum tíma, en hægt er að fylgjast með leikunum á heimasíðu þeirra, sem finna má hér.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert