Ungir bræður hjálpa öðrum börnum

Bræðurnir Bjarki og Valdimar Sæmundssynir.
Bræðurnir Bjarki og Valdimar Sæmundssynir. Ljósmynd/aðsend

Bræðurnir Bjarki og Valdimar Sæmundssynir ætla að hlaupa tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu í ár. Valdimar sem er 16 ára hleypur fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna en Bjarki, sem er 10 ára, ætlar hins vegar að hlaupa til styrktar AHC samtakanna.

Veit að þetta er erfitt

Bjarki hefur verið duglegur að æfa sig fyrir hlaupið.
Bjarki hefur verið duglegur að æfa sig fyrir hlaupið. Ljósmynd/aðsend

AHC samtökin vinna að fræðslu og styrkja grunnrannsóknir á AHC sjúkdómnum en aðeins hefur einn einstaklingur greinst með sjúkdóminn á Íslandi. „Ég þekki hana smá og ég veit að þetta er erfitt og hún er eina sem er með þetta hérna á Íslandi,“ segir Bjarki í samtali við mbl.is, en það er hún Sunna Valdís jafnaldra hans sem ein Íslendinga hefur greinst með sjúkdóminn.

Bjarki ætlaði að taka þátt í hlaupinu í fyrra en var þá of seinn að skrá sig. Hann tók þá strax ákvörðun um að taka þátt í hlaupinu að ári og láta sitt ekki eftir liggja. „Það verður örugglega bara gaman,“ segir Bjarki en hann var ansi svekktur að geta ekki tekið þátt í fyrra. „Ég tók sex og hálfan kílómeter fyrst og það var ekkert mál,“ segir Bjarki um hvernig gengur að undirbúa sig fyrir hlaupið.

Valdimar hleypur fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna en sjálfur greindist hann með krabbamein fyrir ári síðan. Hann náði þó fljótt bata og vill nú leggja sitt af mörkum við að hjálpa öðrum börnum og unglingum sem lenda í sömu lífsreynslu.

Valdimar hleypur fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna.
Valdimar hleypur fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna. Ljósmynd/aðsend

Þeir bræður ætla að fara samferða af stað en Bjarki kveðst þó ekki öruggur um að bróðir sinn verði samferða sér allan tímann. „Hann sagði að hann ætlaði kannski að taka fram úr,“ útskýrir Bjarki, sem er þó ákaflega spenntur fyrir hlaupinu.

Stoltir foreldrar

„Þetta er bara yndislegt, gaman að hann skuli ætla að tækla þetta,“ segir Sæmundur Valdimarsson, faðir drengjanna, stoltur af framtakinu. „Það er langt síðan hann ákvað þetta, alveg ár síðan, þá talaði hann um að vilja þetta. Maður var ekkert að letja hann en bjóst kannski ekki við að þetta yrði að veruleika,“ segir Sæmundur.  

Ester Rós Gústavsdóttir, móðir drengjanna tekur í sama streng. „Ég er náttúrlega bara alveg rosalega stolt,“ segir Ester. „Hann hefur aldrei tekið þátt í svona hlaupi en hann er búinn að æfa sig, þetta verður ekkert mál fyrir hann.“

Reykja­vík­ur­m­araþon Íslands­banka fer fram 20. ág­úst næst­kom­andi. Hægt er að heita á bræðurna í gegnum heimasíðu Hlaupastyrks, Bjarka hér og Valdimar hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert