Bjóða Stígamótum og Landspítala á þjóðhátíð

Frá þjóðhátíð.
Frá þjóðhátíð.

Þjóðhátíðarnefnd hefur ákveðið að bjóða Stígamótum og Neyðarmóttöku Landspítalans að taka út forvarnarstarf, gæslu og viðbragðsteymi á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem nefndin sendi frá sér rétt í þessu í tilefni af því að fimm stærstu skemmtikraftar hátíðarinnar, Agent Fresco, Sturla Atlas, Retro Stefsson, Emmsjé Gauti og Úlfur Úlfur, tilkynntu að þeir hygðust hætta við að koma fram yrði verklagi lögreglu vegna nauðgunarmála ekki breytt.

„ÍBV íþróttafélag skipuleggur og heldur Þjóðhátíð Vestmannaeyja og gerir allt sem stendur í valdi félagsins til að tryggja öryggi hátíðargesta. Félagið hefur hins vegar ekkert ákvörðunarvald um það hvenær eða með hvaða hætti lögregluyfirvöld kjósa að segja frá hugsanlegum lögbrotum sem framin eru á hátíðarsvæðinu,“ segir í tilkynningunni.

Tekið er fram að á síðustu árum hafi ýmislegt verið gert til að auka öryggi. Öryggismyndavélum hafi fjölgað árlega frá 2012, fjölgað hafi verið í gæslu hátíðarinnar, salernum hafi verið kynjaskipt, forvarnarhópurinn Bleiki fíllinn hafi verið stofnaður og þá sé ÍBV með áfallateymi á svæðinu skipað fagfólki sem vinni með lögreglu og heilsugæslu.

„Við Þjóðhátíðarhaldið er í algjörum forgangi að tryggja öryggi gesta, einkum og sér í lagi gagnvart kynferðisbrotum og öðru ofbeldi. Það á aldrei að fela þessi brot; alltaf að ræða þau og alltaf að snúa sökinni og skömminni að gerandanum. Kynferðisofbeldi er aldrei þolandanum eða umhvefinu að kenna; alltaf gerandanum einum,“ segir í tilkynningunni.

„Við treystum því að vinnubrögð lögreglu í hverju tilviki ráðist af því meginmarkmiði að hlífa þolandanum og koma höndum yfir gerandann. ÍBV íþróttafélag og Þjóðhátíðarnefnd vill vinna með öllum til að tryggja ofangreind markmið, þar með talið þeim góðu listamönnum sem nú hafa stigið fram og vilja leggja hönd á plóginn. Einnig hefur verið ákveðið að bjóða Stígamótum og Neyðarmóttöku Landspítalans að koma og taka út forvarnastarfið, gæsluna og viðbragðsteymið á hátíðinni. Vonandi verður það til þess að gera góða gæslu og gott viðbragð enn betra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert