Píratar spyrja aftur um kynferðisbrot

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Styrmir Kári

Um leið og þing kemur saman í ágúst ætla Píratar að leggja fram fyrirspurn um hversu mörg kynferðisbrot voru tilkynnt til lögregluyfirvalda í tengslum við Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

Þetta staðfestir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sem lagði fram fyrirspurn um sama efni í fyrra.

„Þetta leysir ekki allan vanda en þessar upplýsingar þyrftu að koma fram fyrr. Þetta er orðið ákveðið prinsippatriði frekar en lausn á þessu máli,“ segir Helgi Hrafn, sem mun ekki bjóða sig fram í Alþingiskosningum í haust.

Fyrirspurninni í fyrra var beint til Ólafar Nordal, innanríkisráðherra. Í svari við henni kom fram að fimm kynferðisbrot hefðu verið tilkynnt til lögreglunnar í Vestmannaeyjum þegar Þjóðhátíð fór fram; þrjár nauðganir, kynferðisleg áreitni og brot gegn blygðunarsemi. Áður hafði verkefnisstjóri neyðarmóttöku Landspítalans greint frá því að þrír hefðu leitað aðstoðar á móttökunni vegna kynferðisbrota á Þjóðhátíð.

Frá Þjóðhátíð í Eyjum.
Frá Þjóðhátíð í Eyjum.

Viðhorfin til kynferðisbrota ekki í lagi

Helgi Hrafn kveðst eiga erfitt með að skilja sjónarmið Páleyjar Borgþórsdóttur, lögreglustjóra í Vestmannaeyjum, þar sem hún beinir tilmælum til viðbragðsaðila um að veita ekki upplýsingar um kynferðisbrot á hátíðinni.

Fyrr í dag sendi hún frá sér tilkynningu um að allar upplýsingar er varða verkefni lögreglu verði veittar um leið og talið er að þær skaði hvorki rannsóknarhagsmuni né velferð brotaþola.

Frétt mbl.is: Allar upplýsingar veittar

„Ég hef reynt að sýna þessum sjónarmiðum hennar skilning en það er ekki hægt að loka augunum fyrir því að viðhorfin þarna til kynferðisafbrota eru ekki lagi,“ segir Helgi Hrafn, aðspurður. „Það er rétt að þetta eru viðkvæm mál en þetta eru ofbeldismál. Maður fær það á tilfinninguna að fórnarlömbin eigi að umbera einhverja skömm sem er einfaldlega ekki þeirra.“

Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.
Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.

Fórnarlömb ekki nafngreind

Hann bætir við að fólk eigi að sjálfsögðu rétt á því að farið sé varlega með þeirra mál. „En það er ekki verið að biðja um að fórnarlömb séu nafngreind. Það er verið að fjalla um að það sé ekki vísvitandi dregið úr meðvitund um að þessi brot eigi sér stað. Það er mikilvægt að fólk viti að þau eigi sér stað.“

Að mati Helga Hrafns er mikilvægt að hlusta á það sem fagaðilar í málaflokknum hafa að segja og ekki síst fórnarlömbin sjálf. Engu að síður finnst honum hlutirnir ekki í lagi.

„Eftir að hafa íhugað þetta vel kemst ég að sömu niðurstöðu og flestir aðrir. Þetta eru ekki rétt vinnubrögð og ekki rétta viðhorfið til málaflokksins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert