Bjóða gull og græna skóga

Iðnaðarmenn að störfum. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Iðnaðarmenn að störfum. Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Friðrik Á Ólafsson, forstöðumaður byggingarsviðs Samtaka iðnaðarins, segir það vandamál hversu margir ófaglærðir iðnaðarmenn séu að störfum víða um land.

„Innan okkar raða erum við að gera allt sem við getum til að almenningur sem er að kaupa, að þeirra mati iðnaðarmenn, að þeir séu ekki að fá svikna vöru heldur faglærða iðnaðarmenn. Þetta er vandamál og við þurfum að standa okkur í stykkinu og reyna að halda á lofti þeim mönnum sem eru menntaðir,“ segir Friðrik.

Aðspurður segir hann að skortur sé á iðnaðarmönnum í öllum stéttum á þeim háannatíma sem núna er. Alls staðar sé verið að leita að faglærðum mönnum.

Aðilar sem auglýsa mikið

„Það sem við erum að heyra og fá inn á borð til okkar er að menn eru að bjóða gull og græna skóga og svo standa þeir ekki við neitt. Það eru oft á tíðum þessir aðilar sem eru að skapa verkefni eftir sig. Þeir nota ekki rétt vinnubrögð og það kostar peninga og vandræði,“ greinir hann frá og segir þetta oft á tíðum aðila sem auglýsi mikið og séu áberandi en hafi enga menntun á bak við sig.

Nóg er að gera á Bakka við Húsavík.
Nóg er að gera á Bakka við Húsavík. mbl.is/Helgi Bjarnason

Alltaf einhverjir svartir sauðir

Már Guðmundsson, formaður Málarameistarafélagsins, sagði í samtali við mbl.is að töluvert væri um að útlendingar villtu á sér heimildir og segðust vera faglærðir þegar þeir væru það ekki.

Frétt mbl.is: Varar við málurum án réttinda

Friðrik segir að ekki megi eyrnamerkja alla útlendinga sem slæma. „Við þurfum á aðstoð að halda á meðan þessi stærsta kúrfa er. Sem betur fer eru mjög margir sem ráða til sín erlent vinnuafl. Menn reyna að standa sig í því að ráða menntaða einstaklinga en það eru alltaf einhverjir svartir sauðir.“

Stór og mannaflsfrek verkefni

Hann bætir við að stór verkefni á borð við uppbygginguna á Bakka, við Þeistareykjavirkjun og Vaðlaheiðagöng séu mannaflsfrek. Sömuleiðis nefnir hann verkefni í Helguvík, við hótelbyggingar, nýbyggingar og viðhald. Skortur sé aftur á móti á verkefnum í innviðafjárfestingu hér á landi, þar á meðal í vegagerð.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert