„Ekki hefur borið skugga á þetta samstarf“

Frá Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.
Frá Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. mbl.is

Neyðarmóttaka Landspítalans mun ekki eiga frekari aðkomu að Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum en hingað til hefur verið. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Landspítalanum í dag.

Sjá frétt mbl.is frá því í gær: Ræða við Stígamót og Landspítala á morgun

Tekið er þó fram í yfirlýsingunni að Landspítalinn muni eftir sem áður veita ópersónugreinanlegar upplýsingar um mál sem til Neyðarmóttökunnar rata, sé eftir þeim leitað.

Þar segir að neyðarmóttakan hafi átt ágæta samvinnu við mótshaldara og ýmsa aðila sem komið hafa að mannamótum og skemmtanahaldi, meðal annars um verslunarmannahelgar. Hefur samvinnan falist í fræðslu og verklagsreglum, viðbrögðum og þjónustu neyðarmóttöku við brotaþola kynferðisafbrota.

Þá hefur verið samráð við heilbrigðisfólk á hverjum stað, sem og löggæsluaðila, svo unnt sé að tryggja brotaþola skjóta þjónustu og varðveislu sakargagna. „Ekki hefur borið skugga á þetta samstarf,“ segir í tilkynningunni.

Sjá frétt mbl.is: „Þarf að endurheimta traust fólks“

Enn fremur segir að skipaður hafi verið starfshópur árið 2002 af þáverandi dómsmálaráðherra sem yfirfór reglur og lagaumgjörð varðandi útihátíðir og lögð var fram skýrsla með tillögum og ábendingum um atriði sem betur mættu fara í því skyni að auka öryggi samkomugesta á hátíðum. 

Landspítalinn segist gera ráð fyrir því að farið sé að þessum tillögum og ábendingum sem boðaðar hafa verið. Ekki sé á færi Landspítala að meta viðbúnað að öðru leyti en því sem lýtur að heilbrigðisþjónustu. Því telur Landspítalinn að ekki sé ástæða fyrir frekari aðkomu neyðarmóttöku að Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. 

Yfirlýsingin í heild sinni:

Neyðarmóttaka Landspítala hefur undanfarin ár átt ágæta samvinnu við mótshaldara og ýmsa aðila sem komið hafa að mannamótum og skemmtanahaldi, m.a. um verslunarmannahelgar. Þessi samvinna hefur falist í fræðslu um verklagsreglur, viðbrögð og þjónustu Neyðarmóttöku við brotaþola kynferðisafbrota. Þá hefur verið samráð við heilbrigðisstarfsfólk á hverjum stað, sem og löggæsluaðila, svo unnt sé að tryggja brotaþola skjóta þjónustu og varðveislu sakargagna. Ekki hefur borið skugga á þetta samstarf.

Árið 2002  var skipaður starfshópur af þáverandi dómsmálaráðherra sem yfirfór reglur og lagaumgjörð varðandi útihátíðir og lögð var fram skýrsla með tillögum og ábendingum um atriði sem betur mætti fara í því skyni að auka öryggi samkomugesta á útihátíðum. Landspítali gerir ráð fyrir að farið sé að þessum tillögum og ábendingum á þeim úthátíðum sem boðaðar hafa verið. Ekki er á færi Landspítala að meta viðbúnað að öðru leyti en því sem að lýtur að heilbrigðisþjónustu eins og að framan greinir. Því telur Landspítali ekki ástæðu að frekari aðkomu Neyðarmóttöku að Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

Landspítali mun eftir sem áður veita ópersónugreinanlegar upplýsingar um mál sem til Neyðarmóttökunnar rata, sé eftir eftir þeim leitað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert