Falsaðir seðlar á Akureyri

Einn hinna fölsuðu seðla.
Einn hinna fölsuðu seðla. Skjáskot/Facebook

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur undanfarna daga fengið inn á borð til sín mál þar sem aðilar hafa framvísað fölsuðum 5000 króna seðlum á Akureyri.

Í tilkynningu á Facebook-síðu lögreglunnar segir að unglingur sem framvísaði fölsuðum seðlum í tveimur verslunum hafi verið yfirheyrður. Játaði hann að hafa framvísað seðlunum en segist ekki hafa falsað þá sjálfur.

Sólarhring síðar hafi annar aðili síðan framvísað öðrum seðli í verslun og uppgötvaðist það ekki fyrr en viðskiptin höfðu átt sér stað og aðilinn yfirgefið verslunina.

Málin eru til rannsóknar en lögreglan vill hvetja þá sem stunda viðskipti með peningaseðla að vera á varðbergi gagnvart fölsuðum seðlum. Segir hún falsanirnar lélegar en á einum seðli var sama myndin báðum megin seðilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert