Friðrik Dór styrkir Bleika fílinn

Tónlistarmaðurinn Friðrik Dór ætlar að ekki að slást í hóp tónlistarmanna sem íhuga nú að hætta við að koma fram á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Þess í stað mun Friðrik styrkja forvarnahópinn Bleika fílinn um 200.000 krónur, sem hann segist viss um að muni nýtast vel og efla enn frekar það góða starf sem hópurinn mun vinna í Herjólfsdal um næstu helgi.

Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook-síðu söngvarans.

Segist Friðrik virða ákvörðun þeirra sjö hljómsveita sem hafa dregið sig út úr dagskrá Þjóðhátíðar og hrósar þeim fyrir að koma af stað nauðsynlegri og vel tímasettri umræðu um kynferðisbrot. „Það er jákvætt að fókusinn hafi verið settur á málefni kynferðisbrota um næstu helgi, því þannig eru fleiri vakandi fyrir þeim. Þannig eru fleiri til þess að róa í rétta átt.“

„Kynferðisbrot á aldrei að þagga niður og mín skoðun er sú að, rétt eins og Druslugangan sem við göngum á morgun stendur fyrir, þá eru kynferðisbrot alltaf sök gerandans en ekki þolandans.“

Friðrik segir fjarveru sína á Þjóðhátíð ekki verða til þess að minnka líkur á kynferðisglæpum á hátíðinni en sé hann á svæðinu geti hann talað þar gegn kynferðisbrotum og lagt sitt af mörkum. „Einfaldlega vegna þess að ef ég er á svæðinu, get ég komið til aðstoðar sjái ég eða heyri í einhverjum sem er hjálparþurfi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert