Hafa fundið fyrir áhuga

Stefnt er á að námið hefjist á haustdögum.
Stefnt er á að námið hefjist á haustdögum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Lokaskilafrestur fyrir þá skóla sem vilja taka þátt í útboði vegna færslu lögreglunáms yfir á háskólastig er í dag.

Háskólinn á Akureyri hefur þegar tilkynnt að skólinn ætli að taka þátt í útboðinu.

Frétt mbl.is: HA vill sérstakt fræðasetur í lögreglufræðum

Halldór Ó. Sigurðsson, forstjóri Ríkiskaupa, segir að á þessum tímapunkti sé ekki gefið upp hverjir hafi tekið þátt í útboðum og getur hann því ekki sagt til um hvort aðrir skólar en Háskólinn á Akureyri verði með.

„Við höfum fundið fyrir áhuga. Eins og með annað skólanám sem hefur verið hér í boði er mikill áhugi á markaðnum fyrir að taka að sér kennslu. Við höfum reyndar oft fundið fyrir miklum áhuga en svo kemur í ljós að það eru ekki allir sem uppfylla öll þau skilyrði sem sett eru. Þá hætta menn bara við,“ greinir Halldór frá.

Háskólinn á Akureyri vill bjóða upp á lögreglunám.
Háskólinn á Akureyri vill bjóða upp á lögreglunám. Ljósmynd/Háskólinn á Akureyri

Matsnefnd tekur afstöðu

Bjóðendur skulu hafa að lágmarki 10 ára reynslu við rekstur háskóla og viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðherra til kennslu í sálfræði og lögfræði. Mögulegt er að fleiri en einn aðili bjóði saman í verkið.

Matsnefnd á vegum innanríkisráðuneytisins mun taka afstöðu til þeirra skóla sem taka þátt í útboðinu. Hver nefndarmaður fyrir sig gefur einkunn fyrir hvern þátt í þeim matsviðmiðum sem eru notuð.

Mjög seint á ferðinni

Stefnt er að undirritun samnings 1. september næstkomandi og er samningstíminn 48 mánuðir. Gert er ráð fyrir að kennsla hefjist á haustdögum.

„Þetta er mjög seint á ferðinni, miðað við að þetta nám eigi að byrja núna í haust. Þetta verður að ganga hratt fyrir sig,“ segir Halldór. „Þetta kemur seint til okkar og við þurfum að afgreiða þetta á miðju sumri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert