Kettlingarnir koma á sumrin

Guðbjörg Ragnarsdóttir hefur oft bjargað heimilislausum köttum og vill nú …
Guðbjörg Ragnarsdóttir hefur oft bjargað heimilislausum köttum og vill nú stofna dýraathvarf. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég hef alltaf verið mikill dýravinur og mig hefur lengi dreymt um að koma að stofnun svona dýraathvarfs og svo ákvað ég bara að láta verða af því,“ segir Guðbjörg Ragnarsdóttir, sem vinnur nú að því að stofna dýraathvarf á höfuðborgarsvæðinu sem hún mun nefna Von.

Hún á sjálf fjóra ketti og þar af tvo sem voru villuráfandi og hún bjargaði. En hana langar til að bjarga fleirum.

„Það er svo mikið framboð af kisum og kettlingum en fáir sem geta tekið þá að sér, það er vont að horfa upp á það. Sérstaklega núna, það er einsog kettirnir eignist miklu frekar kettlinga á sumrin,“ segir Guðbjörg. „Ansi margir hugsa ekki nógu vel um kisurnar og hvorki gelda þær eða setja á pilluna. Svo er hitt að það er rosalega mikið af fólki sem getur ekki haft köttinn útaf ofnæmi eða af því að það er að flytja. Þá birtir fólk auglýsingu um að ef það geti ekki losnað við dýrið innan þriggja daga, þá verði því lógað. Þá fær maður í magann, en maður getur ekki bjargað öllum. Það er mikil þörf fyrir þetta, því það er ekkert dýraathvarf til sem tekur við öllum dýrum.“

Byrjar með heimilisdýr

Þannig að þú tekur við slöngum og rottum og öllu?

„Nei, slöngur eru náttúrlega ólöglegar. Fyrir utan að maður lendir í siðferðislegum vandræðum með að bjarga dýrum sem þarf að fóðra með músum; þá hlýtur fólk að hugsa með sér hverjum er ég að bjarga? Við ætlum að byrja á heimilisdýrum. En ég er með svo mikið af fólki sem er að vinna með mér, sem er vegan. Það langar til að fara að bjarga beljum. Ef gömul kýr er hætt að mjólka fái hún að eyða sínum síðustu árum í athvarfinu.“

Hvað stefnir þú á að taka við miklum fjölda dýra?

„Það fer eftir því hvað ég fæ stórt húsnæði, hvort ég byrja með tíu eða hundrað búr, það verður bara að koma í ljós. En ég veit að ég get fyllt það allt, þörfin er það mikil.“

Ég er ekki viss um að ég vildi búa við hliðina á einhverjum með hundrað hunda?

„Nei, það er einmitt málið. Maður vill vera rétt við Reykjavík en ekki alveg inni í henni,“ segir Guðbjörg.

Það kostar mikið að bjarga

„Það þarf að fara í gegnum heilbrigðiseftirlitið og matvælastofnunina, þau eiga að sjá um lög varðandi dýr og réttindi dýra.

Það þarf að fá leyfi frá þeim til þess að geta stofnað dýraathvarf,“ segir Guðbjörg Ragnarsdóttir.

„Ég er búin að ræða við þau en það er ekki hægt að ljúka því ferli fyrr en ég er komin með húsnæði, sem verður væntanlega dýrasti hluti verkefnisins.

Það eru lög um hvað þú mátt hafa mörg dýr á heimili þínu. Ef þú ferð yfir ákveðin mörk þarftu að vera skráður sem fyrirtæki, en þá koma meiri kröfur.

Ég er að leita fjáröflunarleiða og er í viðræðum við Reykjavíkurborg um húsnæði. Svo eru einstaklingar nú þegar farnir að styrkja okkur um hver mánaðamót.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert