Miklar annir hjá björgunarsveitunum

mbl.is/Ómar

Töluverðar annir voru hjá björgunarsveitum landsins frá því síðdegis í gær, er sinna þurfti útköllum á Látraströnd, Vatnsnesfjalli, Sauraskógi og í Reykjavík.

Björgunarsveitir á Norðurlandi voru kallaðar út um hálffimmleytið í gær vegna stúlku sem hafði handleggsbrotnað í Fossdal á Látraströnd. Stúlkan hafði fallið í brattri hlíð og var orðin köld og hrakin. Bera þurfti stúlkuna um langan veg í fjalllendi og þurfti því talsverðan mannskap til burðarins, auk þess sem engir vegir eru á Látrastönd og því þurfti að ferja björgunarmenn með bátum frá Akureyri, Dalvík, Grenivík, Ólafsfirði og Ólafsfirði.

Aðgerðunum lauk upp úr miðnætti þegar stúlkan var komin til aðhlynningar á Ólafsfirði.

Tugir komu að björgunaraðgerð í Eyjafirði

Rétt fyrir fimm í gær voru björgunarsveitir í Húnavatnssýslum kallaðar út til að leita konu sem hafði villst í Vatnsnesfjalli í skipulögðu víðavangshlaupi. Konan skilaði sér ekki á póst innan tilskilins tíma og hófu björgunarsveitir leit þegar ljóst var að hlauparinn var í vandræðum. Veðuraðstæður voru frekar slæmar, mjög lítið skyggni var á svæðinu, rigning og frekar svalt. Konan kom fram stuttu eftir að leit hófst.

Þá voru björgunarsveitir á Snæfellsnesi kallaðar út um áttaleytið í gærkvöldi vegna manns sem var slasaður á fæti í Sauraskógi við Stykkishólm. Vel gekk að koma manninum til aðstoðar, enda um stuttan veg að fara.

Loks má nefna að björgunarsveitir í Reykjavík voru kallaðar út um níuleytið í gærkvöldi eftir að tilkynnt hafði verið um fallhlífarstökkvara í sjónum norður af Gróttu. Bátar frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg og bátar og þyrla frá Landhelgisgæslunni auk annarra báta sem voru í nágrenninu tóku þátt í leitinni. Maðurinn reyndist síðan vera stórar gasblöðrur sem sloppið höfðu úr nágrenninu og flutu nú á sjónum.

Fallhlífarmaður reyndist gasblöðrur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert