Óánægja með Tyrki í hægra-samstarfi

Stuðningsmenn Erdogans Tyrklandsforseta í miðbæ Istanbúls. Mynd úr safni.
Stuðningsmenn Erdogans Tyrklandsforseta í miðbæ Istanbúls. Mynd úr safni. AFP

Evrópusamtök hægri flokka, AECR, hafa sett af stað ferli sem gæti leitt til brottreksturs Réttlætis- og þróunarflokks Tyrklands, AK. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er varaformaður AECR og var hann á meðal þeirra sem áttu frumkvæði að brottrekstri Tyrkja úr samtökunum.

Endanleg ákvörðun um brottrekstur flokka úr samtökunum er í höndum AECR-ráðsins sem kemur saman tvisvar á ári.

Í samtali við mbl.is segir Guðlaugur að stjórn AECR hafi ákveðið að senda sendinefnd til Tyrklands í haust til að ræða við fulltrúa AK-flokksins. Er það fyrsta skrefið í ferlinu sem leiðir til brottreksturs flokksins úr samtökunum en Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti kemur úr röðum AK-flokksins.

Evrópusamtökin voru stofnuð að frumkvæði breska Íhaldsflokksins og fleiri hægriflokka árið 2009 og gekk Sjálfstæðisflokkurinn í samtökin árið 2011. Árið 2013 gekk AK-flokkurinn í samtökin. 

Frétt mbl.is: Ákvörðun AKP „ákaflega vitlaus“

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður AECR.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður AECR. mbl.is/Ómar Óskarsson

Guðlaugur Þór segir AECR hafa ákveðið að stíga skrefið vegna þróunarinnar í Tyrklandi á undanförnum árum og var tillagan samþykkt í stjórn AECR í sumar áður en valdaránstilraunin hófst.

„Það hefur verið brotið gegn lýðræðislegum stjórnarháttum og á mannréttindum borgara landsins en það stríðir gegn grunngildum AECR,“ segir Guðlaugur Þór og bendir á að grunngildin séu mannréttindi, lýðræði, einstaklingsfrelsi, þingræði og virðing fyrir fullveldi þjóðríkja.

Guðlaugur segir að þegar AK-flokkurinn gekk í samtökin árið 2013 hafi flokkurinn verið allt annar en sá sem við sjáum og heldur um stjórnartaumana í Tyrklandi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert