„Þarf að endurheimta traust fólks“

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta.
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég fagna því að svo virðist sem þjóðhátíðarnefndin geri sér grein fyrir því að hún þurfi að endurheimta traust fólks. Ég óska þeim alls hins besta með það,“ segir Guðrún Jónsdóttir, talsmaður Stígamóta, eftir að nefndin bauð Stígamótum að koma til Vestmannaeyja til að taka út forvarnir, gæslu og viðbragðsteymi hátíðarinnar.

Sjá frétt mbl.is frá í gær: Ræða við Stígamót og Landspítalann á morgun

Guðrún segir þó að sennilega muni Stígamót ekki komast. „Ég lít á þetta boð Eyjamanna sem tilraun til að bjarga andlitinu. En ég fagna því að þau séu nú farin að hlusta. Eftir þá gagnrýni sem þau fengu frá hljómsveitarmönnunum þá eru þau farin að taka þetta alvarlega og því fagna ég.“

Sjá frétt mbl.is: Draga sig úr dagskrá Þjóðhátíðar

„Ég á samt ekki von á því að við förum út, þetta er enginn fyrirvari og ég sé ekki hvernig við ættum að geta mannað vaktir í það. Það er hápunktur sumarleyfa hjá Stígamótum og starfsemin í lágmarki,“ segir Guðrún og bendir jafnframt á að gagnrýni Stígamóta hefur ekki falist í þjónustunni í Eyjum. 

„Þetta snýst fyrst og fremst um ímyndar- og viðhorfsvanda í Eyjum. Við höfum ekki gert athugasemdir við það að mögulegum brotaþolum sé ekki veitt þjónusta, eða að öðrum aðilum en okkur sé ekki treystandi. Þetta hefur aldrei snúist um það.“

„Hins vegar erum við ósammála ákvörðunum lögreglustjórans, sem studd er af bæjarstjóranum og fagteyminu sem þau vísa í. Við erum ósammála því eins og flest annað fagfólk sem hefur tjáð sig um þetta mál.“

„Okkur finnst það vera á skjön við vinnureglur annarra að segja ekki frá brotum fyrr en síðar. Ég held að ástæðan fyrir hörðum viðbrögðum séu fyrst og fremst óheppilegar yfirlýsingar lögreglustjórans. Hún talaði um það í fyrra að fólk gæti kynnt sér málin þegar búið væri að ákæra í þeim. Það er hins vegar sjaldnast ákært í þessum málum, þannig að ef það ætti fyrst að veita upplýsingar þá, væri umræðan um þessi mál nánast horfin.“

„Í ár orðleggur hún sig líka mjög óheppilega þegar hún talar um almannarými sem fólk stígur sjálfviljugt inn í og að brot gerist á milli aðila. Það er ansi léttvæg meðferð á þessum alvarlega glæp sem nauðganir eru þar sem einn aðili ákveður að meiða annan. Nauðganir gerast ekkert af sjálfu sér. Við eigum fullan rétt á því að fara sjálfviljug inn í hvaða almannarými sem er án þess að vera nauðgað. Þetta er bara klaufalega orðað. Þess vegna vekur það úlfúð,“ segir Guðrún.

Guðrún segir að á síðasta ári hafi 18 kynferðisbrot ratað inn á borð Stígamóta eftir útihátíðir, þar af 12 nauðganir. „Það er ástæðan fyrir því að við látum okkur þessi mál varða.“

Aðspurð út í tilvik þar sem fórnarlömb hafa fagnað ákvörðun lögreglustjórans um að upplýsa ekki um brotið fyrr en síðar, líkt og áður hafa komið fram í fjölmiðlum, segir Guðrún: 

„Mögulega er það þannig. En með umræðunni um Free The Nipple, umræðuna á Beauty Tips, appelsínugulu og gulu andlitunum sem fólk setti í prófílmynd á Facebook hjá sér til að sýna að það hafi orðið fyrir ofbeldi, þá er það krafa um að þessi mál séu rædd en ekki þögguð í hel. Ég minni svo líka á Druslugönguna sem gengin verður á morgun. Á síðasta ári tóku um 20 þúsund manns þátt og var krafan opin umræða og burt með skömmina. Svo getum við alltaf tekið út einstök mál. Ég tel samt að það eigi ekki að gera, heldur eigum við að taka ákvarðanir út frá stóra mynstrinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert