Tugir komu að björgunaraðgerð í Eyjafirði

37 björgunarsveitarmenn komu að aðgerðinni í kvöld.
37 björgunarsveitarmenn komu að aðgerðinni í kvöld. Ljósmynd/Landsbjörg

Lögreglan á Akureyri fékk tilkynningu klukkan 16:18 í dag um slasaða unglingsstúlku á Látraströnd, nyrst í austanverðum Eyjafirði.

Leitaði lögregla til deilda Landsbjargar á Eyjafjarðarsvæðinu eftir aðstoð og fóru björgunarsveitir frá Grenivík, Akureyri, Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði sjóleiðina á vettvang, en það er eina færa leiðin.

Björgunaraðilar voru komnir í land við Látur um klukkustund eftir að útkallið barst og tók við um klukkustundar ganga að slösuðu stúlkunni. Hlúð var að henni á staðnum og hún síðan flutt á börum til sjávar, þar sem björgunarskipið Sigurvin frá Siglufirði flutti hana til Ólafsfjarðar, þangað sem hún kom á tólfta tímanum í kvöld.

Þaðan var hún flutt með sjúkrabíl til Akureyrar til aðhlynningar á sjúkrahúsi, en ekki er vitað um líðan stúlkunnar að svo stöddu.

37 björgunarsveitarmenn og fjórir björgunarbátar tóku þátt í aðgerðinni, auk björgunarskipsins Sigurvins. Á facebooksíðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra segir að verkið hafi gengið vel fyrir sig, þó svo að það hafi tekið tæpar sjö klukkustundir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert