Varar við málurum án réttinda

Málari að störfum við fjölbýlishús. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Málari að störfum við fjölbýlishús. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Ófaglærðum einstaklingum sem taka að sér málningarvinnu  án þess að vera með tilskilin réttindi hefur fjölgað hér á landi, að mati Más Guðmundssonar, formanns Málarameistarafélagsins.

Að sögn Más eru margir þeirra útlendingar, flestir frá Póllandi. „Ég vil endilega vara fólk við þessu og ráðlegg því að kanna hvort viðkomandi sé með réttindi eða ekki.“

Hann hefur fengið kvartanir yfir því að menn villi á sér heimildir og segist vera með réttindi sem málarameistarar án þess að vera með þau og einnig að menn skili ekki þeim verkefnum sem þeir eigi að skila.

Málarar að störfum. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Málarar að störfum. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Brjálað að gera í sumar

Már segir að brjálað hafi verið að gera hjá málurum í sumar. „Við erum búin að fá flottan fyrri part af sumri. Þetta er búið að vera frábært sumar til útimálningar,“ segir hann og bætir við að flesta málarameistara vanti mannskap.

Margir hófu útimálningu í vor á verkefnum sem höfðu safnast upp seinni part síðasta sumars. „Í fyrra fór að rigna í ágúst og við gátum eiginlega ekkert málað eftir verslunarmannahelgi,“ segir hann og á við höfuðborgarsvæðið.

„Það er mikið af undirliggjandi verkefnum og ég held að við getum verið sáttir við hvað er mikið að gera. En við erum alltaf í baráttu við þessa menn sem koma og eru að vinna í málningunni sem eru ekki með nein réttindi.“

Frétt mbl.is: Bjóða gull og græna skóga

Hótelin kærkomin

Að sögn Más eru flestir málarar að störfum í fjölbýlum. „Við finnum fyrir mikilli aukningu á nýbyggingum eins og þessum hótelum,“ segir hann og talar um að vinnan við þau hafi verið kærkomin eftir áramót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert