Ætla að sigra Evrópu með súkkulaði

Hópurinn á bak við SÖLVA Chocolates er sá yngsti sem …
Hópurinn á bak við SÖLVA Chocolates er sá yngsti sem tekur þátt í Startup Reykjavík í sumar. Efri röð frá vinstri: Sveinn Ólafur, Lára Borg og Áshildur. Neðri röð frá vinstri: Jórunn María og Unnur Svala. mbl.is/Freyja Gylfa

Sölva Chocolates er fyrirtæki sem selur handgert hágæðasúkkulaði úr kakóbaunum frá Tansaníu. Fyrirtækið er skipað fimm nýstúdentum úr Verzló og var valið fyrirtæki ársins í samkeppni ungra frumkvöðla, Junior Achievement, á Íslandi. Á mánudag taka þau þátt í Evrópukeppni ungra frumkvöðla í Sviss.

SÖLVA Chocolates samanstendur af Láru Borg Lárusdóttur, Sveini Ólafi Lúðvíkssyni, Áshildi Friðriksdóttur, Jórunni Maríu Þorsteinsdóttur og Unni Svölu Vilhjálmsdóttur, bekkjarfélögum úr Verzló. Þau útskrifuðust í vor og meðal áfanga sem þau sátu á síðustu önninni var valáfangi í frumkvöðlafræði sem nemum á viðskipta- og hagfræðibraut stendur til boða. „Við vorum vinir fyrir en ekki svona góðir. Þetta er búið að ýta okkur mikið saman,“ segir Lára og Unnur tekur undir. „Það hefur gengið mjög vel að vinna saman, en hóparnir voru myndaðir af bekkjarfélögum.“ „Við neyddumst því til að vera saman,“ segir Áshildur, og hlær.

Vinirnir eru sammála um að áfanginn ætti að vera í boði fyrir nemendur á öllum brautum skólans. „Það hafa allir áhuga á að taka þátt, þetta er spennandi áfangi sem nýtist öllum. Við værum ekki hér ef við hefðum ekki tekið þennan áfanga,“ segir Unnur. Hópurinn tekur þátt í viðskiptahraðlinum Startup Reykjavík í sumar, en þær dyr opnuðust þegar fyrirtækið var valið fyrirtæki ársins í vor í samkeppni ungra frumkvöðla, Junior Achievement, á Íslandi. Í kjölfarið var hópnum boðið á fund í Arion banka, en bankinn veitir 2,4 milljóna króna fjárfestingu til sigurvegarans. Áhuginn á frumkvöðlastarfi virðist mikill um þessar mundir þar sem 250 teymi sóttu um að komast að. Tíu teymi urðu fyrir valinu að þessu sinni. „Við erum ótrúlega ánægð hjá Startup Reykjavík, þetta er mikill skóli og við erum að læra alls konar hluti,“ segir Lára. „Við erum yngst hérna en það eru allir rosa duglegir að hjálpa hver öðrum,“ segir Sveinn.

Saltkaramella er ein bragðtegundin sem SÖLVA Chocolates býður upp á.
Saltkaramella er ein bragðtegundin sem SÖLVA Chocolates býður upp á.

En hvað er svona sérstakt við frumkvöðlasúkkulaðið?

Sveinn segir svarið einfalt: „Það elska allir súkkulaði.“ „Við vildum öll gera vöru sem væri auðvelt að ná til fólks með og sem allir myndu elska. Þá kom súkkulaðihugmyndin fljótt upp og við urðum skotin í henni,“ segir Lára. „Það hefur enginn framleitt matvæli áður í þessum áfanga, fyrr en núna. Okkur fannst skemmtilegt að gera eitthvað sem allir hafa aðgang að,“ segir Unnur.

Stunda siðferðileg viðskipti

Hugmyndin varð að veruleika í frumkvöðlafræðinni í Versló. „Við þróuðum konseptið á bak við vöruna, þetta er ekki bara súkkulaði, heldur hágæðavara. Súkkulaðið er unnið úr kakóbaunum frá fyrirtækinu Kokoa Kamili í Tansaníu. Fyrirtækið notar stóran hluta af hagnaði sínum í að byggja upp skóla, spítala og munaðarleysingjaheimili í landinu,“ segir Lára. „Fyrirtækið leggur einnig mikið upp úr því að bæta kjör bænda í Tansaníu,“ bætir Sveinn við. „Við vildum vera meðvituð um það og vekja einnig athygli á því meðal almennings. Við völdum því „fair trade“-fyrirtæki því okkur finnst mikilvægt að stunda siðferðileg viðskipti,“ segir Áshildur.

Hönnun og útlit súkkulaðisins skiptir einnig máli og hefur hópurinn leikið sér með litað kakósmjör sem setur skemmtilegan svip á súkkulaðið. „Við litum kakósmjörið sem er hluti af innihaldi súkkulaðisins og slettum því í formin og setjum svo súkkulaði yfir,“ segir Lára. Varan er í sífelldri þróun og nafnið, SÖLVA Chocolates, er nýtt og ferskt, en áður hét fyrirtækið Moon Chocolate. „Okkur finnst nýja nafnið passa betur við hágæðasúkkulaðið sem varan okkar er. Þetta er sænskt nafn, við vildum vísa í Norðurlöndin og vekja athygli bæði meðal Íslendinga, annarra Norðurlandabúa og vonandi ferðamanna,“ segir Lára.

Fyrirtækið er komið með eigið húsnæði og von er á framleiðsluvélum innan skamms. Framleiðsla á SÖLVA Chocolates mun því að öllum líkindum hefjast í haust. Þegar fyrirtækið steig sín fyrstu skref í byrjun árs fékk hópurinn góða leiðsögn hjá súkkulaðiframleiðendunum hjá Omnom. „Þeir voru frábærir og gáfu sér tíma til að kenna okkur. Þeir sögðust fagna samkeppninni, sem er frábært,“ segir Unnur.

Í dag eru bragðtegundirnar fjórar en fleiri eru í þróun. „Við erum með 45% súkkulaði í nokkrum útgáfum: mjólkursúkkulaði, súkkulaði með þurrkuðum berjum, saltkaramellu og lakkríssalti. Svo munum við koma inn með dökkt súkkulaði og hvítt súkkulaði,“ segir Lára. „Okkar draumur er svo að fara til Tansaníu, hitta bændurna og kynnast starfseminni þar. Við erum mjög spennt fyrir framhaldinu,“ segir Unnur. Framtíðarsýnin er að auka vöruúrvalið enn frekar og bjóða upp á trufflur og konfekt. „Seinna meir langar okkur að bjóða upp á árstíðabundnar vörur, eins og páskaegg,“ segir Sveinn.

Lífið snýst um súkkulaði

Þegar allir fimm meðlimir fyrirtækisins völdu frumkvöðlaáfangann á síðustu önninni sinni í Verzló í vor grunaði þau ekki að lífið myndi snúast nánast alfarið um súkkulaði nokkrum vikum seinna. Einhver þeirra höfðu hugsað sér að taka sér frí, ferðast eða vinna að lokinni útskrift. „Þetta verður bara okkar vinna,“ segir Lára. Áshildur er sú eina sem ætlar í nám í haust, en hún komst inn í grafíska hönnun í Listaháskólanum. „Hún er hönnuðurinn okkar og þetta er bara fjárfesting og mun nýtast mjög vel,“ segir Lára.
Litað kakósmjör er notað í framleiðsluna sem gefur skemmtilegan blæ …
Litað kakósmjör er notað í framleiðsluna sem gefur skemmtilegan blæ á súkkulaðið.

Taka þátt í Evrópukeppni ungra frumkvöðla í Sviss

Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan. Næstkomandi mánudag heldur hópurinn til Sviss þar sem þau munu taka þátt í Evrópukeppni Junior Achievement, ásamt 40 öðrum frumkvöðlafyrirtækjum. „Við förum í viðtal hjá dómnefnd og verðum með vörukynningu. Á lokadeginum kynnum við svo vöruna fyrir öllum,“ segir Unnur. Ásamt öllu þessu mun hópurinn sitja alls konar námskeið. „Svo má ekki gleyma samfélagsmiðlakeppninni á Facebook,“ segir Lára. Á Facebook-síðu Junior Achievement í Evrópu má finna stutta umfjöllun og mynd af öllum keppendunum og sá hópur sem fær flest „like“ fyrir 26. júlí fær aukna athygli frá dómnefndinni. „Við erum í forystu eins og er,“ segir Lára, sem er ánægð með hversu öflugir Íslendingar eru á samfélagsmiðlum.

Hópurinn hyggst einnig ætla að nýta sér þann mikla meðbyr sem Ísland hefur fengið í sumar í kjölfar góðs gengis á Evrópumótinu í knattspyrnu í Frakklandi. „Það hafa allir áhuga á Íslandi og við tökum örugglega bara eitt gott Hú! í lok kynningarinnar,“ segir Unnur og hlær. Þau eru öll sammála um að það muni koma þeim langt í keppninni að vera að vinna að uppbyggingu fyrirtækisins í allt sumar. „Við erum líklega eina fyrirtækið í þeirri stöðu,“ segir Unnur. „Þetta er mjög skemmtilegt ævintýri sem hefur gerst bara á nokkrum mánuðum. Við erum með hundraðþúsund hugmyndir, en við vitum hvar við ætlum að byrja og vitum að það tekur tíma að byggja þetta upp.“

Hér má kjósa SÖLVA Chocolate í Evrópukeppni ungra frumkvöðla og tryggja þeim aukna athygli meðal dómnefndarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert