Mokað út úr móttökudeild vegna myglu

Geðdeild Landspítalans við Hringbraut.
Geðdeild Landspítalans við Hringbraut. mbl.is/Sigurður Bogi

Framkvæmdir eru í fullum gangi við deild 33C á Landspítalanum, bæði innan- og utanhúss. Um er að ræða móttökudeild spítalans þar sem þunglyndar konur með nýfædd börn leggjast inn.

Mygla greindist á deildinni í vetur, auk þess sem mítill fannst, og hafði framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans miklar áhyggjur af stöðu mála.

Sautján af hátt í fimmtíu starfsmönnum deildarinnar kvörtuðu undan einkennum sem líklegt er að rekja megi til myglunnar

Frétt mbl.is: Mygla á deild með nýfæddum börnum

Viðgerðum lýkur í ágúst

Að sögn Aðalsteins Pálssonar, deildarstjóra fasteignadeildar Landspítalans, er búið að moka út úr deildinni og er endurbygging hennar í fullum gangi, auk þess sem utanhússviðgerðir fara fram á álmunni þar sem deildin er. Áætlað er að viðgerðum innanhúss ljúki um 20. ágúst. Utanhússviðgerðirnar verða í gangi fram á haustið.

Kostnaðurinn við framkvæmdirnar nemur um 80 milljónum króna.

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Einn milljarður í framkvæmdir

Landspítalinn fékk auknar fjárveitingar í viðhald og framkvæmdir í ár, sem nema hátt í einum milljarði króna.

Stór utanhússframkvæmd fer fram á Landakoti, þar sem m.a. er verið að skipta út gluggum á suðurhlið hússins. Stórviðgerðir fara fram á þaki sundlaugar á Grensásdeild Landspítalans og í Fossvogi er verið að innrétta nýja æðaþræðingastofu, nýja skurðstofu og verið að stækka vöknun, þ.e. vöknunareiningu eftir skurðaðgerðir, að sögn Aðalsteins.

Stofa fyrir nýtt tölvusneiðmyndatæki

Þar er einnig verið að innrétta nýja stofu fyrir tölvusneiðmyndatæki sem kemur í haust. Tækið kostar um eitt hundrað milljónir króna og þar með verða tvö tölvusneiðmyndatæki til taks í húsinu.

Verið er að reisa sjúkrahótel á lóð Landspítalans við Hringbraut.
Verið er að reisa sjúkrahótel á lóð Landspítalans við Hringbraut. mbl.is/Styrmir Kári

Sjúkrahótel og jáeindaskannahús einnig í vinnslu

Auk umræddra framkvæmda er vinna við nýtt sjúkrahótel og jáeindaskannahús í fullum gangi á Landspítalanum. Þær framkvæmdir standa utan við þann milljarð sem var settur í viðhald og framkvæmdir í ár, enda er vinnan við sjúkrahótelið á vegum Hringbrautarverkefnis um nýjan Landspítala og jáeindaskannahúsið á vegum Íslenskrar erfðagreiningar.

Framkvæmdir við bæði húsin ganga vel og er miðað við að þau verði tekin í notkun á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert