Segir árásina sjokk í öruggri München

Lögregla á Karlsplatz-svæðinu í gær. Sæunn var stödd á bókasafni …
Lögregla á Karlsplatz-svæðinu í gær. Sæunn var stödd á bókasafni skammt frá torginu í gær en upphaflega var talið að skotárásin hefði verið gerð þar. AFP

Skotárásin í München í gær kom íbúum borgarinnar í opna skjöldu þar sem þeir eru vanir því að vera í öruggu umhverfi. Sæunn Sif Heiðarsdóttir, verkfræðinemi við Háskóla Íslands, hefur verið við skiptinám í München síðan í apríl sl. og segir hún fólki líða ótrúlega öruggu í borginni, lögreglan standi sig vel og fólk treysti henni vel.

„Manni líður svo ótrúlega öruggum hérna, það er sjokk að eitthvað svona skyldi gerast,“ segir Sæunn. Hún var stödd á bókasafni í gær þegar fregnir af skotárásinni bárust.

Sæunn Sif Heiðarsdóttir er í skiptinámi í München.
Sæunn Sif Heiðarsdóttir er í skiptinámi í München. Ljósmynd/Sæunn Sif Heiðarsdóttir

„Það byrja einhverjir krakkar að tala um þetta í Facebook-hóp og settu þangað linka á fréttir. Ég vissi þá eiginlega ekkert hvað var að gerast. Ég sat við glugga á bókasafninu og heyri bara í sírenum og þyrlum,“ segir Sæunn.

Í fyrstu var talið að önnur árás hafi verið gerð á Karlsplatz sem er ekki nema hálfum kílómetra frá bókasafninu þar sem Sæunn var í gær. Hún segist hafa orðið smá smeyk þegar því var haldið fram í fjölmiðlum en síðar kom í ljós að það hafi engin árás verið gerð þar.

Yfirvofandi bóksafnslokun var óþægileg

Að sögn Sæunnar var mjög óþægilegt að vera á bókasafninu í gær því hún og samnemendur hennar vissu að það átti að loka klukkan tíu í gærkvöldi. „Þegar það voru tveir tímar í að bókasafnið átti að loka voru enn tilmæli frá lögreglu til fólks um að halda sig innandyra og allar samgöngur lágu niðri,“ segir Sæunn.

Hún segir að þetta hafi allt saman verið blásið meira upp í fjölmiðlum en raunin var. Nefnir hún t.a.m. fréttaflutning af því að þrír árásarmenn gengu lausir um borgina, en nú daginn eftir komi það á daginn að árásarmaðurinn hafi aðeins verið einn á ferð.

Þegar bókasafnið lokaði fékk Sæunn þær upplýsingar frá vinkonu sinni sem var á gangi um borgina að það væru fleiri lögregluþjónar á götum borgarinnar en almennir vegfarendur og því öruggt fyrir hana að koma sér heim til sín. Fékk Sæunn að tylla sér á bögglabera hjá þýskri stúlku sem sparaði henni röltið í tæpan klukkutíma sem það tekur hana að ganga frá bókasafninu heim til sín. Sæunn nefnir það við blaðamann að þrátt fyrir hörmungarnar hafi það verið jákvætt að sjá náungakærleikann blómstra við atburði sem þessa.

Sæunn var á aðalbrautarstöð borgarinnar þegar mbl.is náði tali af henni og segir hún borgarbúa halda áfram með lífið. „Það eru allir farnir út í dag en maður finnur fyrir því að það er allt aðeins rólegra,“ segir Sæunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert