Gaman að geta hjálpað

Salka Sól Eyfeld.
Salka Sól Eyfeld. mbl.is/Árni Sæberg

Sölku Sól Eyfeld er margt til listanna lagt en hún ætlar að stíga risastórt skref út fyrir þægindarammann og hlaupa 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst. Salka ætlar að hlaupa fyrir Hjálpartækjasjóð Dags Kára, en Dagur er níu ára gamall frændi Sölku. Dagur er með svokallaða CP-hömlun sem í hans tilfelli lýsir sér í mjög lágri vöðvaspennu og þroskaskerðingu auk flogaveiki.

„Íþróttir hafa kannski ekkert alltaf verið risapartur af lífi mínu,“ segir Salka glettin í samtali við mbl.is. „Ég hef svona meira verið tónlistarmegin og hef ekki mikið sótt í almenna líkamsrækt en finnst þetta alveg gaman.“

Kvíðir fyrir „píp-test“

Salka keypti sér kort í ræktina á dögunum og segir líkamsræktina skemmtilegri en hún bjóst við í fyrstu. Venjulega segist Salka frekar vera sú týpa sem sefur út á Menningarnótt og kíkir svo á barinn um kvöldið en kveðst þó virkilega spennt fyrir þessari nýju áskorun. „Þetta er svo risastórt skref fyrir mig en það er svo gaman að geta hjálpað Degi Kára líka,“ útskýrir Salka.

Arnar kærasti Sölku ætlar einnig að hlaupa fyrir Dag en telur Salka líklegt að hann muni þó stinga sig af, enda töluvert sprettharður. „Við vorum einmitt að ræða það um daginn sko, þegar það var „píp-test“ í skólanum þá kveið ég fyrir en hann hlakkaði til,“ segir Salka létt í bragði.

Gríðarlegur kostnaður

Í fyrra hlupu vinir og vandamenn Dags Kára fyrir Hjálpartækjasjóðinn og safnaðist þá fé fyrir sérstakri lyftu upp í bílinn fyrir Dag. Í lok síðasta ár úrskurðaði úrskurðarnefnd almannatrygginga um að Sjúkratryggingar Íslands borguðu fyrir lyftuna.

Var því keypt sérútbúið hjól fyrir peningana sem söfnuðust í fyrra svo foreldrar Dags geti hjólað með hann en að sögn Sölku þykir honum virkilega gaman að fara út að leika sér.

Í ár verður safnað fyrir kaupum á eftirlitstæki til að vakta Dag Kára út af flogaköstum á kvöldin og nóttunni. Auk þess er ætlunin að kaupa rólu sem hannn getur legið í í garðinum heima hjá sér.

„Allt tengt þessu er svo ótrúlega dýrt,“ útskýrir Salka en ekki er hlaupið að því að skreppa út í búð og kaupa þann búnað sem Dagur þarf að notast við. Hann þarf sérútbúin tæki sem kosta töluvert fé og mun áheitasöfnunin því vonandi koma sér vel.

Býðst til að koma fram

Salka segist ekki hafa sett sér markmið í hlaupinu annað en það að klára. Hún er aðeins byrjuð að æfa sig en hefur ekki hlaupið 10 kílómetrana enn þá. „Það verður örugglega bara í næstu viku sem ég prófa það,“ segir Salka.

Salka hefur farið rólega af stað í söfnuninni en hún er með hugmynd varðandi áheitasöfnunina sem hún segist eiga eftir að útfæra betur. Hvort sem það er afmæli, brúðkaup eða annað tilefni hyggst Salka bjóðast til að koma fram, í þakklætisskyni fyrir stuðning við Hjálparsjóð Dags Kára. „Það er gaman að geta hjálpað,“ segir Salka, sem er meira spennt en kvíðin fyrir hlaupinu.

Reykja­vík­ur­m­araþon Íslands­banka fer fram 20. ág­úst næst­kom­andi. Hægt er að heita á Sölku í gegn­um heimasíðu Hlaupa­styrks

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert