Sólarlítið í dag

Það verður skýjað um land allt í dag.
Það verður skýjað um land allt í dag. mbl.is/Styrmir Kári

Það er sólarlítill dagur í vændum, að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Viðbúið er að það verði skýjað að mestu um land allt í dag og væta af og til víða.

Spáð er norðaustlægri eða breytilegri átt og verður vindur fremur hægur, líkt og í gær, eða um þrír til átta metrar á sekúndu.

Hiti verður á bilinu tíu til sautján stig.

Gert er ráð fyrir svipuðu veðri á morgun, mánudag.

Á þriðjudag gera spár síðan ráð fyrir að það gangi í eindregna norðanátt með rigningu fyrir norðan og austan á landinu, en það mun rofa til sunnan heiða og hlýna og mun þá hitinn væntanlega ná í tuttugu stigin á Suðurlandi. 

Dagana þar á eftir má búast við að norðlæg átt verði áfram ríkjandi og hitatölur þokast niður á við þegar svalara loft beint úr norðri flæðir yfir landið.

Hægt er að fylgjast með spánni á veðurvef mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert