„Ég get ekki annað en verið sáttur“

Björg­vin Karl á heimsleikunum í crossfit. Hann segir lítinn mun …
Björg­vin Karl á heimsleikunum í crossfit. Hann segir lítinn mun hafa verið milli tíu efstu keppendanna. Ljósmynd/Berglind Sigmunds

„Ég get ekki annað en verið sáttur við árangurinn,“ segir Björgvin Karl Guðmundsson sem hafnaði í áttunda sæti í einstaklingsflokki karla á heimsleikunum í crossfit sem lauk í gærkvöldi. „Að lenda í topp tíu á svona risamóti er nokkuð sem maður getur ekki verið annað en sáttur við.“

Heimsleikarnir nú eru þeir þriðju sem Björgvin Karl tekur þátt í. Hann lenti í þriðja sæti í fyrra og hafði stefnt á að bæta árangurinn nú. „Þótt maður sé ekki í topp þremur þetta árið er svo mjótt á munum milli þeirra sem eru í tíu efstu sætunum að ég get ekki sagt annað en ég sé sáttur,“ sagði hann.

Björgvin Karl hlaut alls 735 stig, en sig­ur­veg­ari í ein­stak­lings­flokki karla var Banda­ríkjamaðurinn Mat­hew Fraser með 1.096 stig, 197 stig­um á und­an Ben Smith sem hafnaði í öðru sæti með 899 stig. „Smith vann í fyrra og Fraser hefur greinilega verið grimmur í æfingum allt árið og ætlað sér að klára þetta dæmi,“ segir Björgvin Karl.

Hann segir samkeppnina nú hafa verið svipaða og í fyrra en keppnin hafi aðeins breyst og svo sé þetta alltaf spurning um dagsformið í hverri keppni. „Í fyrstu æfingunni var t.a.m. flogið með okkur til San José í Kaliforníu þar sem við vorum látin taka 7 km fjallahlaup.“

Líkaminn slekkur á sér eftir svona keppni

Þegar mbl.is náði sambandi við Björgvin Karl sat hann við sundlaugarbakkann í Los Angeles og slappaði af. „Ég hreyfi ekki svo mikið sem tána á mér og við kærastan eigum loksins smástund saman,“ sagði hann þegar blaðamaður spurði hvort hann væri ekki úrvinda eftir keppnina.

„Líkaminn slekkur eiginlega bara á sér eftir svona keppni. Þótt manni muni líða ágætlega eftir svona 5-6 daga veit maður að líkaminn er samt enn að ná sér og að það tekur 2-4 vikur fyrir hann að koma til baka. Þetta er hins vegar viðbúið og maður þarf bara að vera skynsamur og byrja ekki að æfa aftur of snemma.“

Björgvin Karl er eini íslenski karlmaðurinn sem keppt hefur á heimsleikunum í crossfit sl. þrjú ár. „Ég veit ekki af hverju ég er sá eini, en við höfum alveg átt aðra stráka sem hafa verið nálægt því að komast inn,“ segir hann og kveður árangurinn hjá Katrínu Tönju Davíðsdóttur sem sigraði í einstaklingsflokki kvenna á heimsleikunum frábæran. Sjálfur stefnir hann á að mæta á heimsleikana á ný að ári. „Ég get alveg lofað því,“ sagði Björgvin Karl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert