„Skilur af hverju hann var handtekinn“

Frá Stokkhólmi.
Frá Stokkhólmi. mbl.is

Karlmaðurinn sem handtekinn var og úrskurðaður í gæsluvarðhald, grunaður um aðild að morðinu á Íslendingi í Stokkhólmi, heldur fram sakleysi sínu. Þetta segir lögmaður mannsins í samtali við sænska dagblaðið Expressen.

Sjá frétt mbl.is: Handtekinn fyrir morðið á Íslendingi

Mbl.is greindi frá því í dag að lögreglan í Stokkhólmi hefði handtekið karlmann fæddan árið 1978. Er hann grunaður um aðild að morðinu á Íslendingi á mánudaginn í síðustu viku.

„Hann hafnar ásökununum á hendur sér en hann skilur hvers vegna hann var handtekinn. Það á eftir að rannsaka margt og skjólstæðingur minn vonast til að rannsóknin sýni að hann tengist málinu ekki,“ segir lögmaður mannsins í samtali við Expressen.

Sjá frétt mbl.is: Íslenskur maður myrtur í Svíþjóð

Maðurinn var handtekinn á fimmtudaginn í síðustu viku. Hann er sagður hafa komið áður við sögu hjá lögreglunni.

Morðið átti sér stað á mánudaginn í síðustu viku þegar Íslendingurinn fannst blóðugur í Akalla í Stokkhólmi. Hann var þá enn á lífi og var fluttur á Karólínska háskólasjúkrahúsið þar sem hann lést af sárum sínum.

Haft var eftir vitni að mennirnir hefðu rifist um dulkóðuð tölvugögn í aðdraganda árásarinnar, en lögreglan í Stokkhólmi hefur ekki viljað tjá sig um þær upplýsingar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert