Úrkomumet á einni klukkustund

Vatnið flæddi upp úr þessum brunni við Fríkirkjuna þegar hvað …
Vatnið flæddi upp úr þessum brunni við Fríkirkjuna þegar hvað mest rigndi. Töluvert hefur verið að gera hjá slökkviliðinu vegna vatnsleka víða um borg. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Met var slegið er það rigndi 10,2 mm í sjálfvirku stöðina sem stendur á reit Veðurstofu Íslands við Bústaðaveg á milli klukkan þrjú og fjögur í dag. Að sögn Elínar Bjarkar Jónasdóttur, veðurfræðings á vakt, hefur ekki rignt jafnmikið í sjálfvirku stöðina á einum klukkutíma frá því að stöðin var sett upp í kringum 1998.

Veðurvefur mbl.is.

Úrhellið olli enda vatnslekum víða um borg og var töluvert að gera hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. Niðurföll höfðu ekki undan að taka við vatnsflaumnum og að sögn slökkviliðsins flæddi upp úr bæði niðurföllum og klósettum.

Elín Björk segir áfram verða skúraveður í Reykjavík í dag, þó að ómögulegt sé að segja til um það hvort skúrirnar eigi eftir að reynast jafnöflugar, eða hvort þær muni falla á sama stað.  Skúragarðar séu að ganga úr vestri til austurs og þeir muni falla yfir borgina.  Gera megi ráð fyrir að þetta gangi yfir í dag og að mesta úrkoman verði búin í kvöld, en að það létti síðan til í fyrramálið.

Þeir sem ætli að dvelja á suðvesturhorninu yfir verslunarmannahelgina þurfi þá ekki að óttast sambærilega ofankomu um helgina. En gert er ráð fyrir norðaustanátt og þurrvirði suðvestanlands um verslunarmannahelgina.

Sannkallað skýfall varð á Granda í dag.
Sannkallað skýfall varð á Granda í dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert