2,3% atvinnuleysi í síðasta mánuði

Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru að jafnaði 201.800 manns á …
Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru að jafnaði 201.800 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði í júní 2016, sem jafngildir 85,3% atvinnuþátttöku. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Atvinnuleysi mældist 2,3% í síðasta mánuði og hefur ekki mælst jafnlágt í júnímánuði síðan árið 2008 þegar það mældist 2,2%. Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru að jafnaði 201.800 manns á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaði í júní 2016, sem jafngildir 85,3% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 197.100 starfandi og 4.700 án vinnu og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 83,3% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 2,3%.

Samanburður mælinga fyrir júní 2015 og 2016 sýnir að atvinnuþátttakan minnkaði um 1,3 prósentustig. Starfandi fjölgaði um 700, en hlutfallið af mannfjölda minnkaði um 0,8 stig. Atvinnulausum fækkaði um 1.100 manns og hlutfall þeirra af vinnuaflinu minnkaði um 0,6 prósentustig. 

Í frétt á vef Hagstofunnar kemur fram að íslenskur vinnumarkaður sveiflist reglulega milli mánaða vegna árstíðabundinna þátta. Samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands er atvinnuleysi að öllu jöfnu mest í apríl og maí vegna aukinnar eftirspurnar ungs fólks, 16-24 ára, eftir sumar- og/eða framtíðarstörfum og minnst yfir sumarmánuðina júní, júlí og ágúst.

Samkvæmt árstíðaleiðréttingu var fjöldi fólks á vinnumarkaði 193.800 í júní 2016, sem jafngildir 83,1% atvinnuþátttöku, sem er 0,6 prósentustigum lægri en hún var í maí. Fjöldi atvinnulausra í júní var samkvæmt árstíðaleiðréttingu 5.100 sem er fjölgun um 800 manns frá því í maí. Hlutfall atvinnulausra jókst því úr 2,2% í maí í 2,6% í júní.

Leiðrétt hlutfall starfandi fólks í júní 2016 var 80,9%, sem er lækkun um eitt prósentustig frá því í maí. Leitni vinnuaflstalna sýnir að atvinnuleysi hefur minnkað um 0,4 prósentustig sé horft til síðustu sex mánaða og um 1,2 stig á síðustu tólf mánuðum. Hlutfall starfandi síðustu sex mánuði hefur aftur á móti aukist um 0,8 prósentustig og um 1,6 stig síðustu tólf mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert