Vatnið er orðið kalt og baðstaðurinn horfinn

Jökulsá á Fjöllum rásar milli farvega og er nú þar …
Jökulsá á Fjöllum rásar milli farvega og er nú þar sem fólk baðaði sig í fyrra. Myndin var tekin sl. mánudag. Ljósm/Sigurður Erlingsson

Óvenjulegasti baðstaður á Íslandi, náttúrulaugin við norðausturjaðar Holuhrauns, sem mikilla vinsælda naut á síðasta ári er horfinn. Laug þessi myndaðist í kjölfar eldgossins þar sem stóð frá í ágúst 2014 fram í febrúar í fyrra.

Eftir það rann vatn undan hrauninu og kom fram 35-40 gráðu heitt og myndaðist þar þá frábær baðpottur sem spurðist vel út svo fólk flykktist þangað, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Nú hefur hraunið kólnað mikið og vatnsrennslið við hraunjaðarinn, sem er talsvert minna en áður, var í fyrradag komið niður í 16 gráðu hita, að sögn Sigurðar Erlingssonar landvarðar sem mældi hitastigið.

Í atburðarásinni við Holuhraun nú hefur það einnig gerst að nú flæmist ein hvítra kvísla Jökulsár á Fjöllum að Holuhrauni og flæðir yfir baðstaðinn sem var. „Farvegur Jökulsár er að breytast. Í vetur féll áin að jaðri hraunsins að suðaustan og flæmdist svo frá því. Núna rennur hún niður með öllum austurjaðri þess og finnur sinn gamla farveg aftur. Þetta eru merkilegar breytingar sem mjög áhugavert hefur verið að fylgjast með,“ segir Sigurður sem er landvörður á Norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert