Beit lögreglumann í fótinn

mbl.is/Júlíus

Maður í mjög annarlegu ástandi var handtekinn framan við veitingahús á Vegamótastíg klukkan 1:44 í nótt. Samkvæmt upplýsingum úr dagbók lögreglu var maðurinn kominn úr flestum fötum og var að egna til slagsmála og þegar færa átti hann í fangageymslu þá beit hann lögreglumann í fótinn. Maðurinn var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls.

Skömmu fyrir klukkan 21 var ung kona í mjög annarlegu ástandi handtekin við Hofgarða þar sem hún var til ama.  Konan var vistuð í fangageymslu lögreglu meðan ástand hennar lagast.

Þá var maður í mjög annarlegu ástandi handtekinn í Breiðholti klukkan 3:42 í nótt. Hann hafði verið að valda íbúum ónæði, var að berja á dyr og reyna að komast inn í íbúðir.  Þá hafði hann valdið skemmdum á bifhjóli er stóð utan við húsið og var með ætluð fíkniefni í vösum sínum.  Maðurinn var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls.

Klukkan 00:50 var erlendur skipverji handtekinn af tollgæslu við Sundahöfn með ætluð fíkniefni.  Maðurinn var með efni til eigin nota og var hann vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls.  Maðurinn er einnig eftirlýstur hjá lögreglu þar sem hann mun eiga eftir að ganga frá öðru máli.

Þá voru tveir ökumenn stöðvaðir grunaðir um ölvun við akstur, einn í Hafnarfirði klukkan 23:28 og annar á Sæbraut 1:35. Sá sem handtekinn var í Hafnarfirði var jafnframt án ökuréttinda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert