„Ég hló nú bara að þessu“

Frá Húsavík.
Frá Húsavík. Morgunblaðið/Helgi Bjarnason

Maður sem í gærmorgun tók skóhlífar ófrjálsri hendi úr húsakynnum Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Húsavík og keyrði svo á brott í rútu segir málið storm í vatnsglasi.

Frétt mbl.is: „Þetta er bara svo ósvífið“

Rúnar Þór Jóhannsson, framkvæmdastjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Time Tours og bílstjórinn sem um ræðir, segir að fyrirtækið hafi fengið símtal frá stofnuninni vegna málsins, beðist hafi verið afsökunar og því næst hringt í hann.

„Ég hló nú bara að þessu, það var greinilega ekki tékkað á því hvaðan ég tók skóhlífarnar, þær voru allar í ruslinu. Þetta eru einnota skóhlífar og ég tæmdi ruslatunnurnar hjá þeim.“

Rúnar viðurkennir að hafa tekið þrjú til fjögur pör af nýjum skóhlífum en segir þær einnig hafa verið í ruslinu. Hann hafi tekið hlífar fyrir alls 12 gesti en afgangurinn hafi verið notaður.

En af hverju skyldi Rúnar ekki hafa spurt hvort hann mætti grípa skóhlífarnar?

„Úr ruslinu?“ spyr Rúnar á móti hvumsa yfir spurningu blaðamanns. „Ég var að verða of seinn niður í hvalaskoðun að sækja hópinn og ég bara átti ekki von á öðru en það væri allt í lagi að taka notaðar skóhlífar.“

Hvað ástæður þess að hann vantaði hlífarnar varðar segist hann hafa verið á leið með hópinn í Námaskarð á Mývatni. Þar sé allt úti í leirdrullu „og þá gefur maður gestum skóhlífarnar“.

Hann segir þau ekki hafa verið með skóhlífar áður fyrir hópa af þessu tagi, hugmyndin hafi kviknað snögglega og ákvörðunin sömuleiðis.

„Þetta var „instant“. Ég var þarna fyrir nokkrum vikum og bíllinn varð útataður í leir. Ég hugsaði: „Er ekki spítali hér á Húsavík,“ og maður hefur nú farið oft inn á spítala og séð þetta bara í ruslinu, af hverju ekki að nota þetta aftur?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert