Fíkniefnabrot samofin fleiri málaflokkum

Karl Steinar Valsson, tengifulltrúi Íslands hjá Europol.
Karl Steinar Valsson, tengifulltrúi Íslands hjá Europol. mbl.is/Rósa Braga

Nýjar áherslur hjá löggæsluyfirvöldum á Íslandi eru nú í ferli þar sem verið er að vinna eftir áherslum byggðum á greiningarvinnu Europol. Ekki er nú lengur talað um fíkniefnadeild innan lögreglunnar enda sé engin ein sérstök deild fyrir þau mál, heldur aðeins rannsóknardeild á skipulagðri brotastarfsemi. Þetta kemur fram í frétt Fréttablaðsins í dag þar sem rætt er við Karl Steinar Valsson, tengifulltrúa Íslands hjá Europol.

Europol vinnur greiningarvinnu og lætur yfirvöldum á Íslandi í té upplýsingar um helstu áherslur í löggæslu í Evrópu og um það hvaða brot séu mest áberandi.

„Flækjustig rannsókna hjá lögreglunni er miklu hærra en áður hefur verið og kemur til með að verða flóknara. Þetta krefst meiri sérþekkingar, meðal annars á sviði netglæpa. Í dag er brotastarfsemin miklu þyngri og erfiðari,“ segir Karl Steinar.

„Í dag eru fíkniefnabrotin samofin fleiri málaflokkum og er lögð áhersla á brotin í stærra samhengi. Fíkniefnamál ein og sér hafa ekki verið rosalega mörg í gegnum tíðina en þau eru samofin ýmsu öðru, til dæmis peningaþvætti, fjármálabrotum, mansali og fleiru,“ segir Karl Steinar í samtali við Fréttablaðið.

Einnig er rætt við Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, og segist hún mjög ánægð með breytingarnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert