Ljósmyndarar „skjóta á bíla“

Frá Skólavörðustíg.
Frá Skólavörðustíg. Ljósmynd/Viðburðasíða Reykjavíkurborgar

Notendur viðburðasíðu Reykjavíkurborgar ráku upp stór augu þegar þeir lásu ólæsilegan texta um ljósmyndasýningu á Skólavörðustíg í dag en þar má finna myndir af ýmsum bifreiðum sem prentaðar eru á bylgjupappa.

Ef til vill héldu einhverjir að þarna væri á ferð sýning eftir ofbeldisfulla ljósmyndara þar sem m.a. segir í lýsingu ljósmyndasýningarinnar á viðburðavefsíðu Reykjavíkurborgar að ljósmyndararnir hafi kannað menningu Íslands með því að „skjóta á bíla á stöðum sem einkenna arkitektúr og hönnun stöðum sínum“.

Textinn sem fylgdi viðburðinum. Við eftirgrennslan mbl.is kom í ljós …
Textinn sem fylgdi viðburðinum. Við eftirgrennslan mbl.is kom í ljós að öllum er frjálst að skrá viðburð á síðunni. Skjáskot/Viðburðavefur Reykjavíkur

Við eftirgrennslan mbl.is kom í ljós að þarna er á ferð erlendur aðili sem nýtt hefur sér þýðingatækni Google Translate eða annað eins, en Elfa Björk Ellertsdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Reykjavíkurborg, segir hvern sem er geta sett inn viðburð á viðburðasíðu borgarinnar.

„Eina skilyrðið er að viðburðurinn eigi sér stað í Reykjavík eða á stórhöfuðborgarsvæðinu,“ segir Elfa í samtali við mbl.is. „Síðan gengur út á að segja frá sem flestu sem gerist innan borgarmarkanna. Ef þú ert með markað í Seljahverfinu eða í Vogahverfi og það telst vera viðburður þá má það fara þarna inn.“

Elfa segir að starfsmaður Reykjavíkurborgar „hraðlesi viðburðina“ til þess að tryggja að þar fari ekki inn óviðeigandi textar en prófarkalesi ekki textana eða ritskoði þá að öðru leyti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert